Sjávarútvegsfyrirtæki í Noregi vonast til þess að geta hagnýtt sér það ef Íslendingar verða beittir refsiaðgerðum af hálfu Evrópusambandsins vegna makríldeilunnar til þess að selja meira af sjávarafurðum sínum til ríkja sambandsins. Þetta kemur fram í svari frá norska sjávarútvegsráðuneytinu við fyrirspurn frá mbl.is.
Tilefni fyrirspurnarinnar voru ummæli sem höfð voru eftir skoska Evrópuþingmanninum Struan Stevenson á fréttavefnum Fishupdate.com fyrr í vikunni þess efnis að Norðmenn væru reiðubúnir að selja Bretum sjávarafurðir í stað þeirra sem þeir keyptu frá Íslandi eins og staðan er í dag ef til þess kæmi að Evrópusambandið beitti Íslendinga refsiaðgerðum vegna makríldeilunnar. Sagðist Stevenson hafa þetta eftir norska sjávarútvegsráðherranum, Lisbeth Berg-Hansen.
„En ég hef talað við norska sjávarútvegsráðherrann sem hefur fullvissað mig um að Noregur búi yfir mörgum þúsundum tonna af þorski sem sé til staðar og að þeir væru meira en reiðubúnir að fylla það skarð sem bann við íslenskum þorski ylli. Íslendingar og Færeyingar ættu að passa sig því þeir gætu tapað markaðshlutdeild til Noregs varanlega ef Evrópusambandið grípur til refsiaðgerða,“ sagði skoski Evrópuþingmaðurinn samkvæmt frétt Fishupdate.com.
Gert ráð fyrir metafla á þorski úr Barentshafi
Halvard Wensel, talsmaður norska sjávarútvegsráðuneytisins, segir það reyndar ekki rétt að Stevenson hafi hitt Berg-Hansen. Hins vegar hafi hann rætt við Kristine Gramstad, hátt settan embættismann í ráðuneytinu. Hann sagðist á hinn bóginn geta staðfest að Norðmenn gerðu ráð fyrir metháum þorskkvóta á næsta ári vegna samnings sem norsk stjórnvöld hefðu gert við Rússa í október um auknar þorskveiðar í Barentshafi samtals upp á eina milljón tonna.
„Fyrir vikið verður meira framboð á þorski á mörkuðum. Norsk sjávarútvegsfyrirtæki vilja selja framleiðslu sína á þá markaði sem vilja kaupa þorsk frá Noregi og þar á meðal markaði þar sem aukin eftirspurn kann að skapast vegna hugsanlegra refsiaðgerða gegn íslenskum sjávarafurðum,“ segir Wensel og vísar þar til reglugerðar sem tók formlega gildi hjá Evrópusambandinu í síðustu viku og heimilar sambandinu að beita refsiaðgerðum gegn ríkjum sem það telur stunda ósjálfbærar veiðar á deilistofnum.
Þess má geta að íslensk stjórnvöld hafa bent á að samkvæmt umræddri reglugerð Evrópusambandsins sé einungis heimilt að beita refsiaðgerðum gegn makrílafla íslenskra fiskiskipa og hugsanlegum meðafla í slíkum veiðum en ekki íslenskum sjávarafurðum almennt eins og til að mynda þorski.
Þessu hefur hins vegar verið mótmælt af þeirra hálfu enda sé það klárt brot gegn alþjóðlegum samningum sem aðilar makríldeilunnar eru aðilar að líkt og EES-samningnum. Einungis sé heimilt í þessu tilfelli að banna landanir á makríl í þessu tilfelli. Þá hafi íslenskur makríll hvort eð er ekki verið seldur til Evrópusambandsins.