Lífsspor Vilborgar hafið

Vilborg Arna Gissurardóttir gerði sig klára um hádegið í dag
Vilborg Arna Gissurardóttir gerði sig klára um hádegið í dag mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Vilborg Arna Gissurardóttir byrjaði leiðangur sinn á Suðurpólinn í dag en leiðangurinn er farinn í þágu Lífs, styrktarfélags sem hefur það markmið að styðja við konur og fjölskyldur þeirra á kvennadeild Landspítalans.

Vilborg Arna sem er 32 ára frá Reykjavík, verður ein í för á Suðurpólinn og hefur undirbúið þessa för sína um árabil. Ef henni tekst þetta ætlunarverk sitt verður hún fyrsta íslenska konan sem nær þessu markmiði.

Áætlað er að Vilborg Arna verði komin til Suðurskautslandsins 11. nóv nk. en upphaf ferðarinnar er við Hercules Inlet á Suðurpólnum. Gönguleiðin er 1140 km og má búast við krefjandi veðurfari, miklum mótvindi, erfiðu skíðafæri og háum rifsköflum. Áætlaðir göngudagar eru 50 talsins en til þess að ná þeim þarf Vilborg að ganga að meðaltali 22 km á dag.

Vilborg gengur af stað með tvo sleða í eftirdragi sem vega um 100 kg í byrjun ferðar.  Hún mun verða í daglegu sambandi við leiðangursstjórn vegna staðsetningar og veðurspár og senda frá sér stutta pistla á meðan á för hennar stendur.

Leiðangur Vilborgar á Suðurpólinn ber heitið Lífsspor. Öllum áheitum er varið til uppbyggingar á kvenlækningadeild Landspítalans, deild 21A .

Áheitin fara þannig fram að fólki gefst kostur á að hringja í símanúmer söfnunarinnar 908 15 15 á meðan á ferð hennar stendur og þá dragast 1500 kr af reikningi viðkomandi. Einnig er hægt að fara inn á heimasíðu Lífs www.gefdulif.is  og heita á Vilborgu með frjálsum framlögum, segir í tilkynningu.

Nánar má lesa um ferð Vilborgar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka