Mikið tjón undir Eyjafjöllum og í Mýrdalnum

Mikið tjón varð í óveðrinu í Berjanesi undir Eyjafjöllum í …
Mikið tjón varð í óveðrinu í Berjanesi undir Eyjafjöllum í dag. Ljósmynd Vigfús Andrésson

Mikið tjón varð af völdum óveðursins í dag undir Eyjafjöllum og í Mýrdalnum. Vigfús Andrésson, bóndi í Berjanesi undir Eyjafjöllum, segir veðrið hafa verið með því versta sem hann hafi kynnst. Rafmagn er komið á undir Eyjafjöllum en þar hefur verið rafmagnslaust síðan í morgun.

Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli er ekkert ferðaveður undir Eyjafjöllum og í Mýrdalnum og enn síður á Mýrdalssandi.

Rafmagnslaust í Vík

Enginn lögreglumaður er lengur í Vík í Mýrdal og þarf lögreglan á Hvolsvelli eða á Kirkjubæjarklaustri að sinna útköllum í Vík. Ekki var möguleiki fyrir lögreglu að komast vestur Mýrdalssand frá Klaustri nú síðdegis og fór lögreglan því frá Hvolsvelli til þess að meta aðstæður.

Þá var enn rafmagnslaust í Vík en hluti þorpsins fær rafmagn í gegnum dísilrafstöð.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er ómögulegt að meta hve mikið tjónið er enn sem komið er en ljóst að það er töluvert bæði á bílum og húsum.

Þrátt fyrir að dregið hafi úr rokinu gengur enn á með miklum hviðum og er ekki hundi út sigandi á þessu svæði.

Dráttarvél fór á hliðina

Vigfús bóndi í Berjanesi varð fyrir miklu tjóni í dag líkt og fleiri bændur undir Eyjafjöllum. Hann segist ekki hafa heyrt í mörgum í dag þar sem rafmagnslaust var á þessu svæði þar til klukkan 19:30 í kvöld.

Í Berjanesi fóru þök af húsum, meðal annars fór stór hluti af þekju hlöðu og geymslu, með sperrum og öllu. „Reyndar fór raunverulega heilt hús, útihús sem hefur verið notað sem fjárhús en var nýtt sem geymsla. Það hús hreinsaðist bara í burtu,“ segir Vigfús. Auk þess fór dráttarvél á hliðina og telur Vigfús að í þeirri hviðu hafi vindurinn verið hressilega umfram það sem mælar Vegagerðarinnar sýndu uppi á þjóðvegi.

Hann segist ýmsu vanur þegar kemur að veðri enda oft ansi hvasst undir Eyjafjöllum. „Þetta er eitt af verri veðrunum. Ég hef nú upplifað veður sem hafa verið mun verri hérna en þetta kemst í flokk verstu veðra. Þar skiptir líka máli hversu langvinnt þetta hefur verið, í þrjá daga og hvergi nærri búið,“ segir Vigfús sem er feginn því að rafmagnið er komið á enda var orðið ansi kalt á bænum.

Vigfús segir tjónið gífurlegt og svipaða sögu megi segja víðar á bæjum í kring. Meðal annars hafi fjárhús farið í Steinum. Íbúðagámur á túni á Leirum er á hliðinni. Þekja farin af sumarbústað fyrir austan Berjanes. Fjárhúsþekja farin í Núpakoti og svo mætti lengi telja. Hins vegar hafi veðurofsinn verið slíkur að ekki hafi verið hægt að fara á milli bæja.

Dráttarvél fór á hliðina í Berjanesi undir Eyjafjöllum í dag.
Dráttarvél fór á hliðina í Berjanesi undir Eyjafjöllum í dag. Ljósmynd Vigfús Andrésson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert