Refsiaðgerðir brjóti ekki EES-samninginn

Lisbeth Berg-Hansen, sjávarútvegsráðherra Noregs.
Lisbeth Berg-Hansen, sjávarútvegsráðherra Noregs. Ljósmynd/Scanpix

„Við gerum ráð fyrir því að þær aðgerðir sem Evrópusambandið kann að grípa til miði að því að tryggja ábyrga stjórn veiða úr deilistofnum í samræmi við alþjóðalög, þar með talinn EES-samninginn.“

Þetta segir Wensel Halvard, talsmaður norska sjávarútvegsráðuneytisins, í samtali við mbl.is spurður að því hvort norsk stjórnvöld séu ósammála þeirri afstöðu íslenskra ráðamanna að hugsanlegar refsiaðgerðir Evrópusambandið gegn Íslandi vegna makríldeilunnar geti aðeins beinst að veiðum Íslendinga á makríl og meðafla með honum en ekki öðrum tegundum eins og þorski.

Eins og fjallað hefur verið um hafa ýmsir evrópskir stjórnmálamenn haldið því fram að reglugerð sem tók gildi innan Evrópusambandsins í síðustu viku, og heimilar því að beita ríki refsiaðgerðum sem sambandið telur stunda ósjálfbærar veiðar á deilistofni, veiti meðal annars heimild til þess að koma í veg fyrir útflutning á íslenskum þorski til ríkja þess.

Íslenskir ráðamenn og hagsmunaaðilar hafa hins vegar bent á að ekki hægt að beita umræddri reglugerð Evrópusambandsins samkvæmt efni hennar nema vegna veiða úr viðkomandi deilistofni, í þessu tilfelli makríl, og meðafla með honum. Þessu hafa þeir hins vegar mótmælt harðlega enda væri slíkt brot gegn alþjóðlegum samningum sem aðilar makríldeilunnar eru bundnir af og þar með talið EES-samningnum auk GATT-samningnum. Einungis sé samkvæmt þeim heimilt að setja löndunarbann á makríl á meðan ekki eru samningar um veiðarnar.

Ekkert liggur fyrir um refsiaðgerðir

Spurður að því hvort norsk stjórnvöld eigi von á því að Íslendingar verði beittir refsiaðgerðum vegna makríldeilunnar segir Halvard að það sé ekki ljóst en sjávarútvegsráðherra Noregs, Lisbeth Berg-Hansen, hefur áður sagt að norska ríkisstjórnin sé að íhuga hvort hún grípi til slíkra aðgerða gegn Íslendingum líkt og Evrópusambandið hefur hótað að gera.

Engar ákvarðanir hafa verið teknar um það af hálfu Evrópusambandsins hvort gripið verði til refsiaðgerða gegn Íslandi vegna deilunnar í kjölfar þess að ekki náðist samkomulag um skiptingu makrílkvóta vegna næsta árs á fundi strandríkja í London í síðasta mánuði.

Að sögn Lone Mikkelsen, fjölmiðlafulltrúa Mariu Damanaki sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins, má búast við því að ákvörðun um næstu skref af hálfu sambandsins í málinu verði tekin á næstu dögum.

Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB.
Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert