„Rússnesk rúlletta að aka um Kjalarnes“

Flutningabíll valt í Kollafirði í morgun og hafnaði á hliðinni …
Flutningabíll valt í Kollafirði í morgun og hafnaði á hliðinni utan vegar. mbl.is/Júlíus

„Það er ekkert annað en rússnesk rúlletta að aka um Kjalarnes núna þegar vindur í hviðum fer yfir 50 metra á sekúndu,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur. Hann segir það koma sér á óvart að umferð sé um Kjalarnesið í þessu veðri. „Þegar vindhraðinn er svona mikill þá skiptir engu á hvernig bíl fólk er,“ segir Einar. „Þegar það er svona hvasst er þetta varasamt fyrir alla bíla. Ég er hissa á að fólk leggi í þetta.“

Flutningabíll fauk út af í Kollafirði við Kjalarnes nú í morgun. Bílstjórinn slapp með minniháttar meiðsli en bíllinn endaði á hliðinni utan vegar.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vill koma því á framfæri að ekkert ferðaveður er á Kjalarnesi, Sæbraut og í næsta nágrenni við strandlengjuna þessa stundina þar sem sjór gengur á land en bílar hafa fokið á Kjalarnesi. Lögreglan biður fólk einnig um að gæta að börnum sínum enda sérstaklega erfitt fyrir þau að fóta sig í veðrinu.

Einar segir að meðalvindur á Kjalarnesi mælist nú yfir 30 m/s sem þýði að í hviðum fari hann yfir 50 m/s.

Einar segir veðrið nú í hámarki á höfuðborgarsvæðinu en það verði þó áfram bálhvasst og hviðuveður í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert