Snjóflóð í Súðavíkurhlíð

Frá Súðavíkurhlíð - úr safni Bæjarins besta
Frá Súðavíkurhlíð - úr safni Bæjarins besta Af vef BB

Vegurinn á Kjalarnesi er lokaður vegna veðurs, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Súðavíkurhlíð er lokuð vegna snjóflóðs. Vegurinn milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar er lokaður vegna snjóflóðahættu. Vegurinn á Sólheimasandi er lokaður vegna óveðurs. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Ísafirði lenti bifreið í snjóflóðinu en ökumanninum tókst að komast út úr flóðinu af eigin rammleik og amar ekkert að honum. Ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um snjóflóðið hjá lögreglunni á Ísafirði.

UPPFÆRT KL 14:50

Á vef Bæjarins besta kemur fram að um lítið flóð sé að ræða og er vegurinn um Kirkjubóls- og Súðavíkurhlíðar milli Ísafjarðar og Súðavíkur lokaður. Allt er að verða ófært á Vestfjörðum vegna hvassviðris. Ofankoma er með minna móti eins og er, en skafrenningur er mikill og Vegagerðin bíður með mokstur vegna óveðurs.

Óveður er á Grindavíkurvegi, Vesturlandsvegi, Kjalarnesi, Mosfellsheiði, Gjábakkavegi, Hellisheiði, í Þrengslum og við Akrafjall. Það eru hálkublettir á Gjábakkavegi og í sunnanverðum Hvalfirði.

Á Vesturlandi er ófært á  Bröttubrekku og Holtavörðuheiði. Hálkublettir og skafrenningur er í Borgarfirði, hálka og stórhríð í Svínadal og hálka og skafrenningur í Dölunum. Á Laxárdalsheiði eru hálkublettir og skafrenningur. Á Vatnaleið er hálka og éljagangur og hálka og óveður á Fróðárheiði. Óveður er einnig á sunnanverðu Snæfellsnesi.

Á Vestfjörðum er ófært á Klettshálsi, Gemlufallsheiði, Dynjandisheiði, Hrafnseyrarheiði, Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum. Hálka og skafrenningur er á Kleifaheiði og hálkublettir og éljagangur á Hálfdán og Mikladal. Snjóþekja og skafrenningur er í Dýrafirði, en snjóþekja og stórhríð í Önundarfirði og Súgandafirði. Í Ísafjarðardjúpi er snjóþekja og skafrenningur en þæfingsfærð á Vatnsfjarðarhálsi. Snjóþekja og stórhríð er í Reykhólasveit og vestur í Kollafjörð.

Snjóþekja og stórhríð er í Steingrímsfirði og Ennishálsi. Þæfingsfærð er frá Drangsnesi í Bjarnarfjörð en ófært norðan Bjarnarfjarðar.

Á Norðvesturlandi er þungfært eða hálka og stórhríð í Húnavatnssýslum en ófært á Skagastrandarvegi og í Langadal. Í Skagafirði er ófærð og stórhríð á flestum leiðum. Ófært er á Vatnsskarði og Þverárfjalli.

Norðaustanlands er víðast hvar ófærð og stórhríð og beðið með mokstur vegna veðurs. Þó er snjóþekja í innanverðum Eyjafirði og  þæfingsfærð í Vopnafirði.

Á Austurlandi er ófært á fjallvegum og víða þungfært, þæfingsfærð eða snjóþekja í byggð. Snjóþekja og skafrenningur er milli Reyðarfjarðar og Eskifjarðar. Óveður er í Berufirði, Hamarsfirði, Hvalnesi og í Lóni og mjög slæmt ferðaveður milli Djúpavogs og Hafnar.

Á Suðaustur- og Suðurlandi er óveður  undir Eyjafjöllum og hefur veginum verið lokað tímabundið vegna þess. Ófært er á Skeiðarársandi vegna sandfoks. Einnig er óveður við Lómagnúp og í Öræfum. Hálkublettir eru frá Kvískerjum að Vík.

Veðurspá

Súðavík
Súðavík Af vef Bæjarins besta
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert