Sviptivindar við Hörpu

Sjórok við Sæbraut í morgun. Sjórinn á ytri höfninni er …
Sjórok við Sæbraut í morgun. Sjórinn á ytri höfninni er hvítfyssandi. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Gríðarsterkir vindsveipir myndast við Tónlistarhúsið Hörpu við Reykjavíkurhöfn, að sögn bátseiganda sem á bát við Brokeyjarbryggjuna út frá Ingólfsgarði. Nú síðdegis mældist 25 m/s vindur á þaki Hörpu og 36 m/s vindhviður.

Maðurinn, sem óskaði nafnleyndar, sagðist þekkja gömlu Reykjavíkurhöfn mjög vel vegna starfa sinna og tómstundasiglinga. Hann sagði tónlistarhúsið hafa gjörbreytt veðurlaginu á þessu svæði þegar sterkir norðanvindar blási.

„Versti vindsveipurinn í norðanátt fyrir gangandi vegfarendur er við trébrýrnar sem eru þarna. Ég er næstum því 90 kíló og átti erfitt með að komast yfir brúna á móti vindinum á miðvikudaginn var,“ sagði maðurinn.“ Maðurinn taldi að ástandið hafi verið enn verra í storminum í dag þegar var mun hvassara.

„Ég fór í morgun að líta eftir bátnum,“ sagði maðurinn. „Þá sá maður hvernig sjórinn skrúfaðist upp í loftið á sjónum á milli bryggjunnar og tónlistarhússins. Þetta var aldrei svona áður en tónlistarhúsið kom. Maður var í skjóli þarna við bryggjuna með bátinn. Ég ímynda mér að þetta hús hafi ekki verið sett í vindgöng!“

Eftir að hafa litið eftir bátnum fór maðurinn inn í Hörpu og beið eftir því að vera sóttur. „Ég fylgdist með fólki sem var léttara en ég, grannar stúlkur. og um leið og það kom á trébrúna þá fór það að riða og átti fullt í fangi með að halda sér.“

Umsjónarmaður fasteigna í Hörpu sagði nú síðdegis að þar væri mjög hvasst og að veðurstöð á þaki hússins sýndi 25 m/s vind og 36 m/s vindhviður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert