„Útköllin í borginni hrúgast inn“

„Útköllin í borginni eru að hrúgast inn núna,“ segir Ólöf Snæhólm, upplýsingafulltrúi Landsbjargar. Flest útköllin eru vegna þakplatna sem eru að fjúka. Fyrstu útköllin í morgun voru aðallega í efri byggðum borginnar og í Mosfellsbæ. Núna séu útköllin m.a. í miðbæ Reykjavíkur. Jónas Guðmundson hjá Landsbjörg, segir að um 100 útköll hafi borist síðasta klukkutímann. 14 hópar björgunarmanna, hátt í 100 manns, eru nú að störfum. Verið er að reyna að bæta við fólki. „Það er allt vitlaust að verða,“ segir Jónas um útköllin.

Tilkynnt var um járnplötur að fjúka nálægt barnaskóla í borginni og víðar að komu sambærileg útköll.

Þá eru þakplötur að losna af húsum við Laugaveg og björgunarsveitarmenn á staðnum að reyna að festa þær. M.a. var tilkynnt um að plötur væru að fjúka af húsi við Laugaveg 15. Lögreglan er búin að loka götunni í nágrenni hússins.

Allar björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu hafa verið kallaðar út vegna óveðursins. Bílstjórar eru varaðir við að aka um Sæbraut vegna sjóroks.

Gert er ráð fyrir að veðrið nái hámarki hér á höfuðborgarsvæðinu á milli klukkan 11:00 og 13:00 en þá er gert ráð fyrir enn verra veðri en nú er.

 Slysavarnafélagið Landsbjörg bendir fólki á að hringja í 112 – Neyðarlínu, þurfi það á aðstoð björgunarsveita.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert