Röskun er á skólahaldi víða um Norður- og Austurland vegna veðurs og ófærðar í dag. Þá fellur skólaakstur sums staðar niður og kennsla bæði í leik- og grunnskóla fellur niður á Kjalarnesi.
Enginn skólaakstur verður í dag í Grunnskóla Húnaþings vestra á Hvammstanga og Laugabakka vegna veðurs, en skólinn á Hvammstanga verður opinn.
Allt skólahald fellur niður í dag, annan daginn í röð í Grunnskólanum austan vatna í Skagafirði vegna veðurs og færðar á öllum kennslustöðum skólans sem eru á Sólgörðum, Hofsósi og Hólum.
Þá fellur skólaakstur niður í dag í Grunnskóla Fjallabyggðar, sem er á Siglufirði og Ólafsfirði.
Vegna ófærðar og óveðurs er skólahaldi aflýst í bæði leik- og grunnskóla Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit í dag, en þar voru nemendur keyrðir heim upp úr hádegi í gær vegna versnandi veðurs.
Ekkert skólahald verður í Þelamerkurskóla í Eyjafirði í dag og heldur ekki í Valsárskóla á Svalbarðsströnd og í Hafralækjarskóla í Þingeyjarsýslu, en þar féll skólahald niður í gær. Þá fellur skólahald niður í Árskógarskóla í Dalvíkurbyggð.
Skólahald fellur niður í Verkmenntaskólanum á Akureyri í dag, en kennt er í grunnskólum bæjarins og í Menntaskólanum á Akureyri.
Ekkert skólahald er í Grenivíkurskóla.
Þá fellur skólahald niður í Egilsstaðaskóla og í Fellaskóla í Fellabæ.
Skólahald fellur niður á Kjalarnesi, bæði í Klébergsskóla og Leikskólanum Bakkabergi vegna óveðurs.
Vera má að röskun sé á skólahaldi í fleiri skólum.