Tæpur helmingur, eða 47,8% allra félagsmanna í stéttarfélögunum Eflingu, Hlíf í Hafnarfirði og Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis, segist hafa mjög miklar eða frekar miklar áhyggjur af fjárhagslegri stöðu sinni.
Þar af segjast tæp 19% hafa mjög miklar áhyggjur af fjárhagsstöðu sinni. Aðeins 9,2% segjast á hinn bóginn engar áhyggjur hafa og hefur sá hópur stækkað lítillega frá sama tíma í fyrra.
Þessar upplýsingar koma fram í viðamikilli launakönnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Flóafélögin þrjú en félagsmenn þeirra telja tugi þúsunda launþega á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesi.
Í umfjöllun um könnunina í Morgunblaðinu í dag segir, að einkum hafi verið spurt um vinnutíma og laun en einnig var leitað upplýsinga um fjárhagslega stöðu félagsmanna o.fl.