Fjölmenn nýsköpunarráðstefna á Háskólatorgi

Ríflega 100 manns sóttu í dag ráðstefnu á vegum Landsbankans, Háskóla Íslands og Massachusetts Technology Leadership, sem fram fór á Háskólatorgi. Þátttakendur eiga það sameiginlegt að vera að hefja fyrirtækjarekstur eða þurfa aðstoð við að þróa rekstur sinn áfram.

Á ráðstefnunni, „Iceland Innovation UnConference,“ hittu þátttakendur bæði sérfræðinga úr atvinnulífi og háskólum, reynda frumkvöðla, forstjóra, hönnuði og fjárfesta. Tilgangurinn er að aðstoða sprotafyrirtæki á Íslandi við að ná betri árangri. 

Fyrirkomulag ráðstefnunnar er sérstakt að því leyti að þátttakendur komu saman kl. 9 og mótuðu dagskrána í sameiningu. Hver og einn gat sett fram óskir um umræðuefni og á því raðað niður í nokkra tugi umræðuhópa. Þátttakendur gátu sömuleiðis bókað einkaviðtöl við leiðbeinendur. Þannig er byggt á virkri þátttöku í umræðum.

Að sögn Kristjáns Kristjánssonar upplýsingafulltrúa Landsbankans tókst vel til. Fjölmargir tóku til máls og óskuðu eftir umræðu um fjölbreytt efni, allt frá fjármögnun og markaðssetningu til landbúnaðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert