Að Sunnuflöt 48 í Garðabæ stendur eitt stærsta einbýlishús landsins. Húsið veglega er fokhelt og er til sölu fyrir 93 milljónir króna. Á fasteignavef Mbl.is kemur fram að húsið sé heilir 932 fm, þar af bílskúr 63 fm.
Húsið stendur á fallegum stað innst í botnlanga við Sunnuflöt í Garðabæ, er tvær hæðir og hannað af Gassa arkitektum.
Í umfjöllun um húsið í Morgunblaðinu í dag segir Magnús Geir Pálsson sölumaður hjá Eignamiðlun sem hefur húsið til sölu, að Landsbankinn hafi nýlega eignast húsið. „Við fengum eignina á skrá núna í vikunni. Ég myndi halda að kostnaðurinn við að klára húsið sé 150-250 milljónir. Það er alveg ljóst að kaupverð hússins, 93 milljónir, er mjög langt frá byggingarkostnaði. Eftir því sem ég hef heyrt gæti hann staðið í 300 milljónum króna,“ segir Magnús.
Samkvæmt samþykktum teikningum eru ellefu herbergi í húsinu, þar af fjögur svefnherbergi. Til viðbótar eru meðal annars stofur, fataherbergi, skrifstofa, þvottaherbergi, tómstundaherbergi og vínkjallari.