Ekki er að sjá annað en að ofanhríð, kóf og takmarkað skyggni verði norðan- og austanlands meira og minna í allan dag, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Veðurhæð fer þó hægt og bítandi lækkandi yfir landinu öllu.
Á norðanverðum Vestfjörðum mun rofa til með morgninum. Á láglendi austanlands hefur gert vægan blota, en á fjallvegum ofan 150-200 metra hæðar verður áfram snjókoma og skafrenningur. Veðrið fer ekki að lagast af ráði fyrr en undir kvöld, en síðdegis vestan til á norðurlandi.
Dregið hefur mikið úr vindhviðum sunnan- og suðvestanlands í nótt. Þó verða enn vindhviður sem fara yfir 35 m/s fram yfir hádegi, svo sem undir Akrafjalla og austur við Lómagnúp og ef til vill víðar, á meðan enn er hvasst í lofti.
Víða ófært
Óveður er við Akrafjall og ófært er á Holtavörðuheiði. Hálkublettir eru undir Hafnarfjalli og í Borgarfirði er hálka. Í Bröttubrekkur er skafrenningur.
Á Vestfjörðum er ófært á Steingrímsfjarðarheiði, Þröskuldum og Klettshálsi en þungfært á Ennishálsi. Hálkublettir eru á Gemlufallsheiði en þæfingsfærð og skafrenningur er í Ísafjarðardjúpi
Á Norðurlandi eru vegir ýmist ófærir eða þungfærir. Vegurinn milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar er lokaður vegna snjóflóðahættu.
Áfram er svo ófært víðast hvar á Austurlandi. Oddsskarð er þó fært en þar er snjóþekja og snjókoma, Frá Fáskrúðsfirði og suður í Djúpavog eru hálkublettir en annars er greiðfært um suðaustanvert landið þó er óveður við Lómagnúp og sandrok á Skeiðarársandi.