„Ég held að það hafi fallið stórt snjóflóð úr Hólabyrðu áðan. Það heyrðust bara svakalegar drunur hérna niður í byggð. En maður sér ekki neitt. Það snjóar ennþá. Þetta var eftir jarðskjálftann sem drunurnar heyrðust þannig að þetta hefur ekki verið jarðskjálftinn áðan,“ sagði Heiða Björk Jóhannsdóttir íbúi á Hólum í Hjaltadal en þau fundu þó ekki fyrir jarðskjálftanum. Gríðarlegur snjór er nú á Hólum.
„Þetta er rosalega mikið. En Hólar eru reyndar snjókista. Við erum svo heppin að það er frekar mikið logn hérna þannig að það snjóar yfirleitt bara jafnföllnu, svona svo gott sem. Á Króknum þá skefur allt í burtu því það er svo mikið rok þar. Ég held að það hafi ekki verið svona mikill snjór í mjög mörg ár hérna á Hólum,“ sagði Heiða Björk og bætti við: „Það eru allir eiginlega innilokaðir. Fólk kemst um á tveimur jafnfljótum en þetta er svakalegt.“
Spurð að því hvort menn komist um á hestum sagði hún: „Alls ekki neitt. Ég veit að það voru felldir niður tímar hjá reiðkrökkum í gær. Þá var bara hugsað um að koma fóðri í hrossin, moka frá hurðum til þess að koma inn heyrúllum og það er allt á kafi.
Þegar ég fór út um hádegi var dráttarvél á ferð um bæinn og hún átti erfitt með að komast um. Það kemst enginn neitt hérna.“
„Hjaltadalurinn er ófær. Það reyndi mokstursbíll að koma í gær en hann fór út af og sat fastur sitt á hvað þannig að þeir gáfust upp fyrir hádegi í gær að moka þannig að hér situr fólk bara fast.
Það er búið að vera þokkalegt veður. Það er örlítill vindur en ekki það sem aðrir á landinu eru að fast við núna,“ segir Heiða Björk.
Spurð að því hvort börnin á staðnum taki snjónum ekki fagnandi sagði hún: „Það er svona eftir því hvort maður leyfi börnunum að fara út. Við eigum eina stelpu og það er svo rosalegur snjór og mikið ofan á þökum þannig að það hrynur alveg lon og don og maður þorir varla að senda hana út nema vera alveg vakandi yfir börnunum.
Á svölunum hjá mér eru komnir örugglega tveggja metra háir skaflar bara af því sem hefur hrunið ofan af þökunum. Við vorum að reyna að meta það áðan en ætli það sé ekki að lágmarki einn metri jafnfallinn snjór hérna, jafnvel 120 sentímetrar. Þetta er rosalega mikið.“
Heiða Björk segist vonast til að það komi einhver í dag að moka veginn. Segir að það hafi verið búist við mokstursbíl um klukkan tvö í dag en að það bóli ekki á neinum.
„Það bara snjóar og snjóar. Ég ætla að vona það svo maður fari að komast í búð. Við þurfum að sækja allt niður á Sauðárkrók sem er 35 kílómetra í burtu. Maður getur horft á björtu hliðarnar. Maður er ekki í hífandi roki og ógeði. Maður kemst aðeins út fyrir dyrnar,“ segir Heiða Björk.