Stormur fram eftir degi í dag

Áfram verður óveður á landinu í dag.
Áfram verður óveður á landinu í dag. mbl.is/Rax

Veðurstofan varar við áframhaldandi stormi með vindhraða yfir 20 m/s á landinu í dag. Ekki fer að draga úr vindi fyrr en síðdegis og töluverð úrkoma verður áfram á norður- og austurlandi. 

Klukkan 6 í morgun var kröftug norðanátt, 13-23 m/s á landinu og enn hvassara sums staðar til fjalla. Skýjað og þurrt var um landið sunnanvert, en talsvert sandfok syðst. Rigning var meðfram austurströndinni en annars snjókoma um landið norðan- og austanvert. Í nótt varð kaldast á Haugi í Miðfirði þar sem frostið fór niður í -2 stig, en mildast var 7 stiga hiti á Fagurhólsmýri.

Veðurstofan segir frá því að djúpar lægðir séu í grennd við landið. Skammt vestur af Færeyjum er 975 mb lægð sem þokast í suður og grynnist smám saman. Við Shetlandseyjar er sömuleiðis 979 mb lægð á leið í norður og um 400 km norðaustur af Dalatanga er 989 mb lægð sem hreyfist í suðvestur. Þá er yfir Grænlandi víðáttumikil 1030 mb hæð. 

Von er á norðanblæstri í dag, 15-23 m/s með dálitlum éljum sunnanlands en snjókomu, slyddu eða rigningu með norðaustur- og austurströndinni. Talsverð úrkoma verður áfram á norður- og austurlandi líkt og í gær. Smám saman fer að draga úr vindi og úrkomu síðdegis, fyrst á norðvestanverðu landinu. 

Á morgun snýst svo í vestlæga átt, fyrst vestan til og léttir þá til um tíma. Frost verður víða 0 til 5 stig, en frostlaust með austurströndinni. Heldur hlýnar á morgun. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert