Tveir milljarðar í nýtt tollkerfi

Brýnt er að endurhanna og nutímavæða kerfi tollsins.
Brýnt er að endurhanna og nutímavæða kerfi tollsins. Morgunblaðið/Ómar

Á næstu árum er fyrirhugað að endurnýja tollkerfi embættis Tollstjóra fyrir um tvo milljarða króna. Kerfin eru sögð „komin að fótum fram“. Eitt af því sem stjórnvöld þurfa að ákveða er hvort laga á tollskrána að tollskrá Evrópusambandsins.

Í fjárlagafrumvarpi ársins 2013 kemur fram að fyrirhugað er að verja 200 milljónum á næstu fimm árum til að endurnýja tvö tollkerfi af tíu. „Óumflýjanlegt er að endurnýja öll tollkerfin þegar fram í sækir en núverandi áætlun gerir ráð fyrir að byrjað verði á tveimur kerfum,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.

Þörf á að nútímavæða tollkerfin

Stefán Haukur Jóhannesson, formaður samninganefndar Íslands, sagði á opnum fundi um stöðuna í aðildarviðræðunum í vikunni að tollkerfin væru „komin að fótum fram“ og þau þyrfti að endurnýja hvort sem við gerðumst aðilar að Evrópusambandinu eða ekki. Raunar hefði embætti tollstjóra í nokkur ár óskað eftir fjárveitingu til að fara í þessa vinnu.

Snorri Olsen tollstjóri sagði rétt að tollurinn hefði í nokkur ár óskað eftir að peningar yrðu settir í að endurhanna og nútímavæða tollakerfin. Veitt hefði verið fjárveiting til að endurnýja launa- og bókhaldskerfi ríkisins og til að endurnýja tölvukerfi sem heldur utan um virðisaukaskattinn og fleiri kerfi skattsins, en tölvukerfi tollsins hefðu setið eftir.

Snorri sagði að í þessari vinnu þyrftu menn að hafa í huga spurninguna um hvort við værum á leið inn í ESB eða ekki. Ákvörðun um aðild hefði áhrif á hvernig kerfin væru úr garði gerð. Snorri sagði að þessi vinna væri að fara af stað. Hann sagði að ekki lægi fyrir endanleg greining á því hvort breytingarnar sem gerðar yrðu á kerfinu yrðu sambærilegar við kerfi ESB. Greina þyrfti hvernig kerfið myndi líta út ef við gengjum í ESB og hvernig kerfið myndi líta út ef við gengjum ekki í ESB. Þegar búið væri að fara í þessa greiningarvinnu sæju menn að hve miklu leyti þetta væru sömu kerfin og að hvað miklu leyti þau væru samnýtanleg.

Norðmenn samræmdu sitt kerfi að kerfi ESB

„Síðan eru nokkrar pólitískar spurningar sem ég svara ekki og varða tollskrána. Norðmenn, sem eru ekkert að velta því fyrir sér að fara inn í Evrópusambandið, tóku þá ákvörðun að hafa sína tollskrá samræmda tollskrá ESB. Þeir segja að það henti þeim vegna þess að útflutningsmarkaður þeirra er líkt og okkar um 70% innan ESB. Þess vegna getur verið skynsamlegt að hafa samræmi í tollskrám, algerlega óháð því hvort við gerumst aðilar að ESB eða ekki,“ sagði Snorri.

Þeir sem vinna að þessu verkefni hafa vissar áhyggjur af því að umsókn um aðild að ESB trufli vinnuna, að því leyti að það veki tortryggni hjá andstæðingum aðildar ef farið verði í að aðlaga tollkerfið hér á landi tollkerfi ESB.

„Evrópusambandið leggur mikla áherslu á að þjónusta atvinnulífið með þeim hætti að álagning tolla kosti sem minnst, kerfið sé skilvirkt en skili jafnframt upplýsingum inn í þeirra kerfi sem geri þeim kleift að áhættugreina og fylgja eftir að þær tekjur sem eiga að skila sér skili sér. Áhersla er líka lögð á að þjónustan sé öll veitt á einum stað,“ sagði Snorri, en bætti við að við gætum gert breytingar í þá veru að bæta kerfin og þjónustu við atvinnulífið hvort sem við værum innan eða utan ESB.

Snorri sagði að tollurinn hefði sótt um IPA-styrki frá ESB í þetta verkefni. Ekki væri búið að svara umsókninni, en hann sagðist gera sér vonir um að hún yrði samþykkt.

Þurfum við að leggja toll á súrál?

Stefán Haukur sagði á kynningarfundinum að tollar á Íslandi væru almennt lágir líkt og í ESB. Þetta auðveldaði samningamönnum að ná saman. Það væru hins vegar nokkur mikilvæg atriði sem skiptu Íslendinga máli, t.d. varðandi tolla á aðföng til sjávarútvegsins og tolla á súrál. ESB legði toll á súrál og ef við þyrftum að taka hann upp þýddi það aukinn kostnað fyrir álframleiðendur hér á landi. Hann sagði að samtök áliðnaðarins í ESB hefðu lagst á árar með Íslandi í þessu máli vegna þess að stærstur hluti áls sem framleiddur er á Íslandi væri fluttur á markaði innan ESB og tollur á súrál myndi því leiða til hækkunar á áli sem iðnfyrirtæki í ESB kaupa. Slíkt væri ekki í samræmi við hagsmuni bandalagsins.

Snorri Olsen
Snorri Olsen mbl.is
Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra
Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert