Eldri borgarar á Akureyri þurfa að öllum líkindum að greiða fyrir aðgang að sundlaugum frá og með áramótum. Greint er frá þessu á vef Vikudags í dag.
Í fjárlögum Akureyrarbæjar fyrir næsta ár er tillaga frá íþróttaráði þess efnis að afnema gjaldfrjálsan aðgang fyrir fólk 67 ára og eldra. „Þetta er einfaldlega gert vegna þess að það vantar tekjur til að reka sundlaugarnar. Það er fyrst og fremst vera að horfa á það,” segir Nói Björnsson, formaður íþróttaráðs, í samtali við Vikudag.
Árgjald fyrir eldri borgara verður fimm þúsund krónur en einstakt gjald 150 krónur, sem er sama upphæð og börn greiða.
„Margir eldri borgarar eru ekki aflögufærir þannig að þetta er ekki gott mál,” segir Jóhannes Sigvaldason, formaður Félags aldraðra á Akureyri, í samtali við Vikudag.
„Margt af því fólki sem hefur nýtt sér fríar sundferðir á erfitt með aðra hreyfingu. Við vorum einmitt með átak í vor þar sem eldri borgarar voru hvattir til að fara í sund og hreyfa sig. Akureyrarbær var með okkur í því átaki og því skýtur það svolítið skökku við að bærinn svari því með að setja á okkur gjald,” segir Jóhannes.