Samkvæmt skoðanakönnun Capacent Gallup eru 78,4 prósent þeirra sem afstöðu tóku hlynnt því að 10 prósent af áfengisgjaldi renni til nýrra úrræða fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga og fjölskyldur þeirra. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun sem SÁÁ lét gera.
„Þetta er mjög í takt við það sem við verðum vör við,” segir Gunnar Smári Egilsson, formaður SÁÁ, í fréttatilkynningu.
Samkvæmt könnuninni segjast 26,2 prósent landsmanna vera að öllu leyti hlynnt kröfunni, 20,0 prósent mjög hlynnt og 19,8 prósent frekar hlynnt. Hins vegar segjast 7,7 prósent vera að öllu leyti andvíg kröfunni, 4,6 prósent mjög andvíg og 5,9 prósent frekar andvíg. Samtals sögðust því 66,0 prósent vera fylgjandi kröfunni, 18,2 prósent voru andvíg henni en 15,9 prósent tóku ekki afstöðu. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 78,4 prósent fylgjandi kröfunni en 21,6 prósent andvíg henni.
Nokkur munur er á afstöðu kynjanna. Þannig segjast 68 prósent karla vera hlynnt því að 10 prósent áfengisgjaldsins verði notað með þessum hætti en 89 prósent kvenna.
Undanfarið hafa nokkur sveitarfélög lýst yfir stuðningi við kröfur SÁÁ um að hluta áfengisgjaldsins verði varið til að bæta líf þolenda áfengis- og vímuefnavandans; meðal annarra Reykjanesbær, Árborg og Fljótsdalshérað. Þá samþykkti stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga tillögu Dags B. Eggertssonar, formanns borgarráðs Reykjavíkur, að sambandð óskaði eftir viðræðum við ríkisstjórnina um með hvaða hætti mætti bæta þjónustu við áfengis- og vímuefnasjúklinga, fjölskyldur þeirra og börn, segir enn fremur í tilkynningunni.
Í morgun höfðu um 22.500 landsmanna skrifað undir kröfuna um Betra líf! á vefsvæði SÁÁ, saa.is.
„Við munum safna undirskriftum út þessa viku og hugsanlega lengur,” segir Gunnar Smári.
Könnunin var gerð 25. október til 1. nóvember síðastliðinn. Þetta var netkönnun. Úrtakið var 1.450 manns, 613 svöruðu ekki en 837 svöruðu. Svarhlutfallið var því 57,7 prósent. Könnun var gerð fyrir SÁÁ en greidd af velunnurum samtakanna.