Þorsteinn Magnússon lögmaður sækist eftir 2.-3. sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík.
Þorsteinn segist líta á sig sem frjálslyndan miðjumann. Hann vill nýta kosti markaðarins þar sem þeir eiga við en að velferð og manngildi séu í hvívetna sett ofar auðgildi. Þá vill hann að leyst sé úr viðfangsefnum á grundvelli rökhyggju, rökræðu og skynsemi. Þar af leiðandi falli hans stjórnmálaáherslur vel að grunngildum og stefnu Framsóknarflokksins.
„Meðal þeirra málefna sem ég vil leggja áherslu á er að bæta skilyrði fyrir atvinnuuppbyggingu og nýfjárfestingu ásamt því að skapa fyrirtækjum hagstæðara rekstrarumhverfi. Tryggja þarf að regluverk um fjármálafyrirtæki stuðli að heilbrigðu fjármálakerfi. Skapa þarf skilyrði fyrir lægri verðbólgu, lægri vexti og afnám gjaldeyrishafta. Brýnt er að draga úr vægi verðtryggingar og áríðandi að ráða bót á skuldavanda heimilanna,“ segir í yfirlýsingu frá Þorsteini.
„Mikilvægt er að Alþingi endurheimti traust þjóðarinnar. Stjórnmálamenn þurfa að vera meðvitaðir um að þeir sækja umboð sitt til fólksins og haga störfum sínum eftir því. Ekki er vanþörf á að orðræða stjórnmálamanna verði málefnalegri og að meira tillit verði tekið til álita færustu sérfræðinga. Vanda þarf í hvívetna vinnubrögð við lagasetningu.“
Þorsteinn ólst upp á Suðurlandi en fluttist til Reykjavíkur árið 1999. Hann hefur meðal annars starfað í fjármálaráðuneytinu, sem héraðsdómslögmaður á LEX og var nýverið ráðinn framkvæmdastjóri óbyggðanefndar.