Hætta á ísingu

Snemma í kvöld kemur mun kaldara loft úr norðri. Þá frystir um landið norðanvert og hætt við að ísing myndist eftir rigningu dagsins s.s. á Vestfjörðum, í Dölum suður á Bröttubrekku og Holtavörðuheiði og á fjallvegum á Snæfellsnesi. Þetta á einnig við víðast á Norðurlandi og sums staðar á Austurlandi, segir í athugasemdum veðurfræðings Vegagerðarinnar.

 Á Suður- og Vesturlandi eru flestir vegir að verða greiðfærir en þó er hálka á Mosfellsheiði og í Haukadal og hálkublettir á Fellsströnd og Skarðsströnd.

 Hálkublettir eru á Steingrímsfjarðarheiði og Barðaströnd en flughált  á Hrafnseyrarheiði og hálka á Dynjandisheiði.

Ófært er norðan Bjarnarfjarðar á Ströndum.

 Á Norðvesturlandi eru hálkublettir í Langadal og á  Öxnadalsheiði en hálka  á Siglufjarðarvegi frá Hófsósi út í Fljót.

Þæfingsfærð er vestanvert á Skaga.

Norðaustanlands er hálka eða hálkublettir  á velflestum vegum en flughált á kafla innan við Húsavík, á Hófaskarði og á Vesturárdalsvegi að Hauksstöðum.

 Á Austurlandi er víðast hvar hálka  eða hálkublettir en þæfingsfærð í Jökulsárhlíð.  Breiðdalsheiði og Öxi eru ófærar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert