Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, hefur lagt fram frumvarp sem annars vegar gerir ráð fyrir breytingum á lögum um 40 stunda vinnuviku og hins vegar lögum um almennan frídag 1. maí.
Samkvæmt frumvarpinu skal veita frídaga vegna uppstigningardags og sumardagsins fyrsta næsta föstudag eftir þann dag sem þessa daga ber upp á nema um sé að ræða annan hátíðisdag. Þá skuli veita frí miðvikudaginn á undan.
„Beri jóladag, annan í jólum, nýársdag og 17. júní upp á helgi skal veita frídag næsta virkan dag á eftir. Þá skal halda 1. maí hátíðlegan sem frídag verkamanna fyrsta mánudag í maí,“ segir ennfremur í frumvarpinu.
Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að lagt sé til „að lögin taki gildi 1. janúar 2013 og næsta ár verði þá hið fyrsta með þessu nýja fyrirkomulagi.“