Bjarni krafði Össur sagna um fríverslunarsamning

Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Bjarni Benediktsson, þingmaður og formaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra um stöðu fríverslunarsamnings á milli Íslands og Kína. „Ætlar ríkisstjórnin að setja ESB-viðræður í forgang í utanríkismálum?“ spurði Bjarni í óundirbúnum fyrirspurnartíma í dag og minnti á að til hefði staðið að samningum myndi ljúka fyrir lok næsta árs.

„Hvers vegna er þessi dráttur á málinu?“ spurði Bjarni. „Asía er það svæði í heiminum þar sem vöxtur í viðskiptum er hvað mestur og þar er Kína í fararbroddi.“

Össur sagðist fagna áhuga formanns Sjálfstæðisflokksins á samskiptum við Alþýðulýðveldið Kína og sagði stefnt að því að ljúka samningum fyrir lok næsta árs, eins og alltaf hefði staðið til. 

Bjarni kom aftur í ræðustól og sagði Össur gera gys að málinu. Um væri að ræða afar mikilvægan samning. Össur baðst þá afsökunar á því að „nenna ekki að vera alltaf leiðinlegur“, heldur væri hann léttlyndur, bjartsýnn og brosandi.

Hann sagði „alvarlega agnúa“ hafa komið upp í viðræðunum, Kínverjar hefðu t.d. óskað eftir óheftum aðgangi fyrir kínverskt vinnuafl hér á landi og einnig þyrfti að ljúka viðræðum varðandi tolla á sjávarafurðum. En viðræður væru á áætlun.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert