Forsetakosningarnar í Bandaríkjunum vekja athygli langt út fyrir landsteinana, enda um eitt valdamesta embætti heims að ræða. Sé eitthvað að marka fréttaflutning og fjölda frétta virðist talsverður áhugi á kosningunum hér á landi.
Bandaríska sendiráðið hefur boðið nokkrum fjölda á kosningavöku á Hilton hóteli annað kvöld.
Að sögn Paul Cunningham, talsmanns sendiráðsins, var slík kosningavaka haldin í fyrsta skiptið við síðustu forsetakosningar árið 2008 og var þá svo vel tekið í tiltækið að ákveðið var að endurtaka leikinn.
„Kannski er þetta byrjunin á skemmtilegri hefð,“ segir Cunningham.
Þeir sem hafa hug á að horfa á beinar útsendingar og nýjustu tölur hafa úr miklu að moða, en mikill viðbúnaður er hjá öllum bandarískum sjónvarpsfréttastöðvum og að auki munu margir fjölmiðlar vera með beinar útsendingar á netinu.
Bein útsending verður á RÚV og hefst hún klukkan 23:15 annað kvöld.
Félag stjórnmálafræðinema við Háskóla Íslands hefur stundum haldið kosningavökur vegna forsetakosninganna vestanhafs, og mun einnig gera það í ár, að sögn Rósönnu Andrésdóttur varaformanns Politicu, félags stjórnmálafræðinema. Kosningavakan er einungis opin félögum í Politicu.