„Enginn spáði fyrir um óveðrið“

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ham­far­ir eru próf­steinn á innviði sam­fé­lag­anna. Þegar Múla­kvísl tók brúna í fyrra­sum­ar var kom­in ný brú eft­ir viku. Þegar raf­magn fer af á Íslandi er því kippt í liðinn á til­tölu­lega skömm­um tíma. Þegar ofsa­veður gekk yfir New York var raf­magns­laust þar í eina viku. Þetta eru staðreynd­ir sem við skul­um hafa í huga og þakka fyr­ir það sem vel er gert á Íslandi þegar veður ganga hér yfir og vísa ég þar til góðs starfs al­manna­varna sem sanna aft­ur og ít­rekað gildi sitt.“

Þetta sagði Ögmund­ur Jónas­son inn­an­rík­is­ráðherra á Alþingi í dag í svör­um við fyr­ir­spurn frá Jóni Bjarna­syni, þing­manni Vinstri­hreyf­ing­ar­inn­ar - græns fram­boðs, en hann spurði ráðherr­ann að því hvort ekki yrði unn­in heild­ar­skýrsla um at­b­urðarás­ina sem átti sér stað í óveðrinu á Norður­landi í sept­em­ber þar sem mik­ill fjöldi kinda drapst og fólk og fyr­ir­tæki voru án raf­magns í tölu­verðan tíma. Einnig spurði Jón um það hvernig viðbragðsaðgerðir hefðu reynst, búnaður og annað.

„Staðreynd­irn­ar eru þess­ar: Ofsa­veður gekk yfir Norður­land í fyrri hluta sept­em­ber. Önnur staðreynd: Eng­inn spáði þessu fyr­ir, eng­in varnaðarorð voru gef­in út. Strax og ljóst varð hvaða hætta var á ferðinni brugðust menn við. Ég vek at­hygli á frum­kvæði sýslu­mann­sembætt­is­ins á Húsa­vík í því efni. Um leið og al­manna­vörn­um barst kallið var brugðist við. Núna eru menn að fara yfir þær brota­lam­ir sem þarna kunna að hafa verið,“ sagði Ögmund­ur enn­frem­ur.

Fleiri þing­menn tóku þátt í umræðunni og voru menn sam­stiga um nauðsyn þess að tryggja að stöðugt væri reynt að gera gott fyr­ir­komu­lag al­manna­varna betra.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert