„Enginn spáði fyrir um óveðrið“

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Hamfarir eru prófsteinn á innviði samfélaganna. Þegar Múlakvísl tók brúna í fyrrasumar var komin ný brú eftir viku. Þegar rafmagn fer af á Íslandi er því kippt í liðinn á tiltölulega skömmum tíma. Þegar ofsaveður gekk yfir New York var rafmagnslaust þar í eina viku. Þetta eru staðreyndir sem við skulum hafa í huga og þakka fyrir það sem vel er gert á Íslandi þegar veður ganga hér yfir og vísa ég þar til góðs starfs almannavarna sem sanna aftur og ítrekað gildi sitt.“

Þetta sagði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra á Alþingi í dag í svörum við fyrirspurn frá Jóni Bjarnasyni, þingmanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, en hann spurði ráðherrann að því hvort ekki yrði unnin heildarskýrsla um atburðarásina sem átti sér stað í óveðrinu á Norðurlandi í september þar sem mikill fjöldi kinda drapst og fólk og fyrirtæki voru án rafmagns í töluverðan tíma. Einnig spurði Jón um það hvernig viðbragðsaðgerðir hefðu reynst, búnaður og annað.

„Staðreyndirnar eru þessar: Ofsaveður gekk yfir Norðurland í fyrri hluta september. Önnur staðreynd: Enginn spáði þessu fyrir, engin varnaðarorð voru gefin út. Strax og ljóst varð hvaða hætta var á ferðinni brugðust menn við. Ég vek athygli á frumkvæði sýslumannsembættisins á Húsavík í því efni. Um leið og almannavörnum barst kallið var brugðist við. Núna eru menn að fara yfir þær brotalamir sem þarna kunna að hafa verið,“ sagði Ögmundur ennfremur.

Fleiri þingmenn tóku þátt í umræðunni og voru menn samstiga um nauðsyn þess að tryggja að stöðugt væri reynt að gera gott fyrirkomulag almannavarna betra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka