Þrír þingmenn hafa lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem ætlað er að tryggja Jafnréttisstofu auknar heimildir til þess að afla upplýsinga telji stofan að brotið hafi verið gegn umræddum lögum eða fyrirmælum stofunnar. Atli Gíslason er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en meðflutningsmenn hans eru Lilja Mósesdóttir, þingmaður Samstöðu, og Siv Friðleifsdóttir, Framsóknarflokki.
Vilja þingmennirnir að eftirfarandi texta verði bætt inn í 4. grein laganna: „Jafnréttisstofa getur við rannsókn máls gert nauðsynlegar athuganir á starfsstöð fyrirtækis og lagt hald á gögn þegar ríkar ástæður eru til að ætla að brotið hafi verið gegn lögum þessum eða fyrirmælum Jafnréttisstofu. Við framkvæmd aðgerða skal fylgja ákvæðum laga um meðferð sakamála um leit og hald á munum.“
Þá vilja þeir að nýrri grein verði bætt inn í lögin sem kveði á um refsingu fyrir að eyðileggja, falsa, koma undan eða gera á annan hátt ónothæf hvers kyns gögn sem hafa þýðingu við rannsókn Jafnréttisstofu. Skuli það varða sektum eða fangelsi allt að þremur árum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
Ennfremur skuli varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum að veita Jafnréttisstofu rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar vegna rannsóknar máls. Sama refsing skuli liggja við því að veita stofnuninni rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar „að öðru leyti“ eins og segir í frumvarpinu. Er í þessu sambandi vísað til sambærilegra ákvæða í samkeppnislögum.