Tengdi Sjálfstæðisflokkinn við repúblikana

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Brynjar Gauti

„Öllu hugsandi fólki er það verulegt áhyggjuefni hversu langt til hægri Repúblikanaflokkurinn hefur færst, bæði vegna afstöðu hans til ýmissa minnihlutahópa og sjálfsagðra réttinda sem er okkur Íslendingum framandi, en ekki síður vegna þeirrar öfgakenndu hægri stefnu um lægri skatta á auðmenn og niðurskurð í velferðarkerfinu sem þar koma svo skýrt fram í samfélagi sem þarf augljóslega á allt öðru að halda.“

Þetta sagði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins og bætti síðan við: „Það verður þess vegna sífellt meira undrunarefni hversu ríka áherslu forusta Sjálfstæðisflokksins á Íslandi leggur á samstarf við þennan systurflokk sinn og það að sækja samkomur hans og sýna honum virðingu í hvívetna. Það vekur líka athygli á þeirri umræðu sem skotið hefur upp kollinum í þeim flokki hvort hér á Íslandi sé að skjóta rótum einhvers konar teboðshreyfing sem sé að flytja Sjálfstæðisflokkinn lengst út á hægri kant íslenskra stjórnmála.“

Ríkisstjórnin hækkað skatta á alla

Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, svaraði Helga og sagði það vekja furðu að hver stjórnarliðinn á fætur öðrum virtist hafa ríka tilhneigingu til þess að tengja Sjálfstæðisflokkinn og stefnu hans við Repúblikanaflokkinn. „Það er algjörlega úr lausu lofti gripið þó að ég og annar þingmaður í Sjálfstæðisflokknum hafi sótt ráðstefnu hægrisinnaðra og miðjuflokka sem komu saman á ársfundi Repúblikanaflokksins. Þar voru sem sagt þingmenn úr fjölmörgum Evrópusambandsríkjum og alls staðar að úr heiminum alveg til Ástralíu.“

Bjarni sagði að þetta væri síðan notað til þess að halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að taka upp sömu stefnu og Repúblikanaflokkurinn og innleiða á Íslandi skattastefnu til þess að ívilna tekjuhæsta fólkinu. „Ég kalla eftir því að menn bendi á dæmi um þetta en vek um leið athygli á því að þessi ríkisstjórn hefur hækkað skatta á alla Íslendinga, líka þá tekjulægstu, og hún hefur komið sérstaklega illa fram við eldri borgara. Auðlegðarskatturinn sem er ekkert annað en eignaupptökuskattur leggst á alla, óháð tekjum,“ sagði hann ennfermur og benti á að 1994 hefði slíkur skattur verið dæmdur ólöglegur í Þýskalandi þar sem hann hefði ekki staðist þýsku stjórnarskrána og verið lagður niður í kjölfarið.

„Þetta er skattstefna ríkisstjórnarinnar. Þetta er ríkisstjórnin sem kom eldri borgurum út af vinnumarkaði árið 2009 með því að tekjutengja bætur þeirra og laun með þeirri skýringu að það þyrfti að koma þessu fólki af vinnumarkaði til að koma öðrum að. Eldri borgarar voru settir í fátækragildrur. Þetta er stefnan sem menn eru að verja og benda síðan á Sjálfstæðisflokkinn algjörlega rakalaust og kenna hann við stefnu sem er í einhverjum fjarlægum löndum. Það er ótrúleg málefnafátækt,“ sagði Bjarni að lokum.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Rax
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert