Jónína Rós Guðmundsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, telur nauðsynlegt að útbúin verði geðheilbrigðisstefna þar sem einblínt er á ungt fólk. Hún segir að á ferð um kjördæmi sitt, Norðausturkjördæmi, hafi henni orðið ljóst að andleg vanlíðan ungs fólks fari vaxandi.
Jónína nefndi þetta á Alþingi í dag. Hún sagðist hafa rætt við fólk í kjördæmi sínu sem starfi dagsdaglega með ungu fólki. Raddirnar hafi verið samhljóða; áhyggjur af andlegri heilsu ungs fólks. Margt af því sé kvíðið, það eigi erfitt með að einbeita sér og sýni ákveðin einkenni þunglyndis.
Að auki hafi henni verið sagt að vanlíðan unga fólksins sé vaxandi. Jónína vill að þetta sé tekið alvarlega og að þingið komið að málum. Unga fólkið þurfi verkfæri til að komast yfir vanlíðan sína og læra að lifa með henni. Eitt verkfærið sé lyf, en frekar þurfi að finna meðferðir sem ekki séu mjög flóknar og hægt sé að vinna með unga fólkið í hóp.
Hún benti á að unga fólki væri framtíðin, því yrði að hlusta á raddir sem þessar og forgangsraða í þágu unga fólksins.