„Ég held að nánast allir ESB-andstæðingar, sem studdu VG við kosningarnar vorið 2009, hafi gefið flokkinn upp á bátinn. Þeir vita fyrir víst að flokkurinn undir núverandi forystu er ekki vettvangur fyrir ESB-andstöðu,“ segir Atli Gíslason, fyrrverandi þingmaður VG, um stöðu ESB-andstæðinga innan VG í aðdraganda kosninga.
Atli telur veika stöðu ESB-andstæðinga innan VG skýra brotthvarf Guðfríðar Lilju Gréttarsdóttur úr flokknum, enda hafi henni m.a. verið ýtt til hliðar út af Evrópumálunum.
„Forystan sýnir í verki bæði stuðning við ESB-umsókn og aðild. Það eru svik við kjósendur VG í alþingiskosningunum vorið 2009. Um þessi brigsl var samið við Samfylkinguna af forystu VG fyrir kosningarnar vorið 2009. Steingrímur J. Sigfússon hét því auk þess við stjórnarmyndunarviðræðurnar vorið 2009 að strax yrði látið reyna á stóru málin, landbúnaðar- og sjávarútvegsmál, og þá væri aðildarviðræðum sjálfhætt í síðasta lagi um áramótin 2010 til 2011. Við það var ekki staðið. Vísvitandi eru stóru málin geymd til að vinna tíma í aðlögunarferlinu sem er ætlað að innleiða allt ESB regluverkið í íslensk lög áður en til atkvæðagreiðslu um aðild að ESB kemur. Svo á að kaupa velvild þjóðarinnar með asna klyfjuðum gulli IPA-styrkja og áróðurs.“
Svikin verða rökstudd með evrunni
Atli telur forystu VG munu grípa til evrunnar til að rökstyðja umskipti í Evrópumálum.
„Fimm þingmenn VG bókuðu eindregna andstöðu við ESB – umsókn og um frelsi til andstöðu, eins og samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnarflokkanna ber með sér. Þeir þingmenn VG sem stóðu við bókunina voru settir á ís og gert ókleift að starfa innan flokksins. Forysta VG styður aðild að ESB og mun rökstyðja svikin með evru og gjaldeyrishafta sjónhverfingum.“
Andstaða Guðfríðar Lilju við ESB var reiðarslag
Lilja Mósesdóttir, formaður Samstöðu, gekk úr VG á sama tíma og Atli.
Hún tekur undir að andstaða Guðfríðar Lilju við ESB eigi þátt í brotthvarfi hennar.
Fleira komi þó til.
„Árásir stuðningsfólks forystu VG á störf Guðfríðar Lilju hófust þegar hún neitaði að samþykkja ESB-umsóknina. Guðfríður Lilja var á þessum tíma þingflokksformaður og andstaða hennar við ESB-umsóknina, sem endaði með hjásetu, var túlkuð sem reiðarslag fyrir forystu VG. Þingflokksformaður VG hafði ógnað tilveru „fyrstu tæru vinstristjórnarinnar.“
Þegar Guðfríður Lilja lýsti síðan mánuði seinna yfir andstöðu við Icesave 1, þá var eins og hún hefði hellt olíu á eld og henni var varla vært lengur í embætti þingflokksformanns. Ég tel að þetta fyrsta ár Guðfríðar Lilju í embætti þingflokksformanns hafi valdið henni djúpstæðum vonbrigðum, þar sem átökin innan þingflokksins veiktu verulega að hennar mati baráttu hennar fyrir náttúrverndarsjónarmiðum og réttlátu samfélagi,“ segir Lilja Mósesdóttir.