„Maður veltir fyrir sér hvort óvissa um gengistryggðu lánin og fleira hafi í för með sér að margir séu að bíða og vona að málin leysist einhvern veginn. Talan er ekki á leiðinni niður og mér sýnist á öllu að hún hafi ekki verið hærri síðan árið 2006 þegar við hófum að taka þetta saman.“
Þetta segir Samúel Ásgeir White, forstöðumaður fyrirtækjasviðs hjá Creditinfo, í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag. Tilefnið er úttekt fyrirtækisins á vanskilum, sem gerð var að beiðni Morgunblaðsins, en Samúel Ásgeir undirstrikar að hann hafi enga rannsókn til að styðjast við þegar greining á aukningunni er annars vegar.
Samkvæmt úttektinni voru 26.868 einstaklingar í alvarlegum vanskilum 1. nóvember og hefur þeim fjölgað jafnt og þétt í ár. Þeir voru til samanburðar 25.734 í nóvember í fyrra og 20.413 í janúar 2010, þróun sem kemur Samúel á óvart.