Ítrekað varað við óveðri

Frá fjárleit á Þeistareykjum
Frá fjárleit á Þeistareykjum Björgunarsveitin Ársól Reyðarfirði.

Um­hverf­is- og auðlindaráðuneytið seg­ir að ít­rekað hafi verið varað við óveðrinu sem gekk yfir Norður­land dag­ana 9.-11. sept­em­ber sl. en Ögmund­ur Jónas­son inn­an­rík­is­ráðherra hélt því fram á Alþingi í gær að eng­inn hefði sagt fyr­ir um veðrið.

Vegna frétta af umræðum á Alþingi í gær vill um­hverf­is- og auðlindaráðuneytið koma eft­ir­far­andi á fram­færi:

„Veður­stofa Íslands spáði ít­rekað stormi og snjó­komu á Norður­landi í aðdrag­anda óveðurs sem gekk yfir lands­hlut­ann dag­ana 9.-11. sept­em­ber síðastliðinn. 

Fyrsta spá um veðrið kom fram í texta­spá tæpri viku áður en óveðrið reið yfir, eða þriðju­dag­inn 4. sept­em­ber þar sem spáð var hvassri norðanátt, rign­ingu eða slyddu norðan- og aust­an­til mánu­dag­inn 10. sept­em­ber. Næstu daga breytt­ist spá fyr­ir um­rædd­an mánu­dag ekki ýkja mikið á milli spá­tíma, en upp­lýs­ing­ar urðu þó ít­ar­legri þegar nær dró í tíma. Þannig voru upp­lýs­ing­ar um 15-23 metra vind­styrk komn­ar inn í spár á fimmtu­dags­kvöld 6. sept­em­ber auk þess sem áfram var spáð slyddu eða rign­ingu.

Á laug­ar­dags­morgni 8. sept­em­ber var fyrsta stormviðvör­un­in gef­in út fyr­ir Norður­land og voru stormviðvar­an­ir í gildi fram á þriðju­dag 11. sept­em­ber. Klukk­an 11 á sunnu­dag var gef­in út spá sem gilti fyr­ir næstu 48 klukku­stund­ir þar sem varað var við stormi á Norður­landi eystra, auk snjó­komu eða slyddu til fjalla en rign­ingu á lág­lendi. Síðdeg­is á sunnu­deg­in­um 9. sept­em­ber var svipuð spá gef­in út.

Af of­an­greindu má sjá að Veður­stofa Íslands spáði óveðrinu með margra daga fyr­ir­vara. Eft­ir því sem nær dró urðu þess­ar spár ná­kvæm­ari, en þó var spá­in í meg­in­at­riðum svipuð. At­hug­an­ir sýna að staðbundið varð veðrið held­ur verra en texta­spár sögðu til um og hiti um 1-2 gráðum lægri en spár gerðu ráð fyr­ir. Snjóaði því víða á lág­lendi þar sem spáð hafði verið rign­ingu eða slyddu,“ seg­ir í til­kynn­ingu frá um­hverf­is- og auðlindaráðuneyt­inu.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert