Búist er við stormi, meðalvindhraða meiri en 20 m/s, á vestan- og norðanverðu landinu á morgun, fimmtudag.
Vonskuveðri morgundagsins er misskipt milli landshluta, samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar. Veður helst þokkalegt sunnan- og austanlands fram eftir degi.
Í dag er spáð vaxandi austanátt, 10-20 m/s eftir hádegi, hvassast með suðurströndinni. Rigning, slydda og sums staðar snjókoma inn til landsins, en úrkomulítið á Norðurlandi fram undir kvöld. Hiti 0 til 5 stig. Hvessir í nótt og fyrramálið, fyrst á Vestfjörðum og á annesjum nyrst. Norðaustan 18-25 kringum hádegi, en hægari vindur sunnan- og austanlands fram á kvöld. Snjókoma norðantil á landinu, annars skúrir eða él. Hiti um frostmark.