Dómstólar látið undan múgæsingi

Jón Steinar Gunnlaugsson.
Jón Steinar Gunnlaugsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ásakanir á hendur Jóni Steinari Gunnlaugssyni um að hafa verið „fulltrúi kynferðisbrotamanna í Hæstarétti“ hafa hvílt þungt á honum árum saman. Hann segist fyrirlíta nauðganir en óréttlætanlegt sé að gefa afslátt af sönnunarkröfum. Það þýði þó að óhjákvæmilegt sé að kynferðisbrotamenn gangi stundum lausir.

Jón Steinar lét sem kunnugt er af störfum sem dómari í hæstarétti í október eftir tæp 8 ár. Hann flutti framsögu í dag á málfundi Lögréttu, félags laganema við Háskólann í Reykjavík, um sönnunarkröfur í kynferðisbrotamálum, en hann heldur því fram að dómstólar hafi látið undan þrýstingi almenningsálitsins og slakað um of á sönnunarkröfum í slíkum málum.

Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari flutti einnig framsögu þar sem hún komst að gagnstæðri niðurstöðu og sagðist engin merki sjá þess að sönnunarbyrði hafi verið snúið við í kynferðisbrotamálum eða slakað á sönnunarkröfum. Nánar verður fjallað um erindi Huldu Elsu á mbl.is á morgun.

Árásir á opinberum vettvangi

Jón Steinar sagði það hafa verið erfitt að geta ekki svarað fyrir sig þegar á hann var ráðist á undanförnum árum, en nú þegar hann sé hættur sem dómari geti hann loks talað. „Kynferðisbrot og nauðganir, ég hef algjöra fyrirlitningu á þessum brotum, persónulega. Þetta eru ofbeldisbrot þar sem vegið er að helgum réttindum þess sem fyrir þeim verður,“ sagði Jón Steinar.

„En það eru alveg furðuleg örlög fyrir mig, sem tek lögfræðina mína alvarlega, að verða sífellt fyrir árásum á opinberum vettvangi fyrir að vilja beita lagareglum. Ég hef verið sakaður um að kynferðisofbeldismenn eigi skjól hjá mér. Þetta hvílir þungt á mér og hefur gert árum saman, að ráðist sé á mig með þessum hætti fyrir að vinna skylduverk mín.“ 

Upphrópanir og hávaði

Í erindi sínu fór Jón Steinar yfir víðan völl og vék meðal annars að viðbrögðum samfélagsins, sem hann sagði ofsafengin gagnvart sýknum í kynferðisbrotamálum. 

„Kynferðisbrot vekja upp heitar tilfinningar. Nauðgun er mjög alvarlegt brot gegn þýðingarmiklum og viðkvæmum hagsmunum þess sem fyrir verður svo það er í sjálfu sér skiljanlegt að þau skuli vekja slíkar tilfinningar. En verkefni þeirra sem um þau fjalla fyrir dómstólum er að víkja slíkum tilfinningum til hliðar og dæma eftir reglunum. Það er skylda okkar, ekkert annað. Við hlustum ekki á upphrópanir og hávaða.“

„Eigum við ekki að standa upp og klappa fyrir almenningi?“

Jón Steinar sagði dæmi þess hér á landi að viðbrögð almennings hafi keyrt úr hófi fram í ofsa. Sem dæmi nefndi hann prófessorsmálið svo nefnda, frá árinu 1999, þar sem hann sjálfur var verjandi manns sem sakaður var um sifjaspell gagnvart dóttur sinni. Maðurinn var sakfelldur í héraði en sýknaður í Hæstarétti og miklar deilur spunnust í samfélaginu um niðurstöðuna. Var Jón Steinar m.a. gagnrýndur harðlega fyrir framgöngu sína í málsmeðferðinni.

Eftir að dómurinn féll bárust hæstarétti yfir 2000 tölvupóstar þar sem sýknu málsins var mótmælt. Að sögn Jóns Steinars lamaðist tölvupóstkerfi réttarins út af þessu, en sýknudómurinn hafi verið óhjákvæmilegur. „Þessi maður missti fjölskyldu sína út af því írafári sem varð í samfélaginu eftir að búið var að sýkna hann. Hann missti atvinnu sína og æru og þurfti að flytja til útlanda. Eigum við ekki að standa upp og klappa fyrir almenningi á Íslandi, sem tók þennan mann af lífi eftir að hafa verið sýknaður? Þetta er ekki fallegt,“ sagði Jón Steinar.

Til samanburðar benti hann á að sambærileg viðbrögð hafi aldrei orðið við sakfellingu í kynferðisbrotamálum. Sjálfur vill hann þó meina að slíkir dómar hafi fallið án þess að sökin hafi með réttu sannast. „Það varðar velferðarmissi að vera dæmdur án þess að skilyrðum um sönnunarfærslu sé fullnægt. Menn skulu ekki halda að það sé bara eitthvað grín að hljóta slíkan dóm, en það er eins og öllum sé sama.“

Ofstæki gagnvart Björgvin Björgvinssyni

Jón Steinar vék einnig að máli Björgvins Björgvinssonar, yfirmanns kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem var um tíma færður til í starfi eftir að hann lét þau ummæli falla í viðtali í DV, um fjölda nauðgana í landinu, að „fólk ætti að líta oftar í eigin barm og bera ábyrgð á sjálfu sér“. Ummælin vöktu hörð viðbrögð, sem Jón Steinar sagði lýsa miklu ofstæki.

„Hann var einungis að mælast til þess að fólk hefði varann á því að setja sig í þá stöðu að líklegt væri að glæpamenn brytu gegn því. Hann var að vara fólk við, eins og ef lögregla varar fasteignareigendur við innbrotum og mælist til að það setji upp viðvörunarkerfi. Það er beinlínis hættulegt þegar látið er undan ofsafengnum viðbrögðum af þessu tagi, en það gerði lögreglan í Reykjavík.“

Ekki endilega saklaus, en sekt ekki sönnuð

Lagareglur um sönnunarfærslu eru þær sömu í kynferðisbrotamálum og öðrum flokkum afbrota. „Raunveruleikinn ætti samt að vera öllum ljós sem skoða þetta,“ sagði Jón Steinar. „Dómstólar virðast því miður hafa látið undan hávaða og þrýstingi, sem þeir eiga alls ekki að gera. Um þetta eru mörg dæmi.“

Jón Steinar sagði þó ekki við hæfi að rekja þau í smáatriðum, en nefndi engu að síður dóm sem hann vakti athygli á nýlega og féll í júní 2012, þar sem ungur piltur var sakfelldur fyrir nauðgun. Í viðtali við visi.is í október sagði Jón Steinar að hugsanlega sæti pilturinn saklaus í fangelsi. Hann sagðist á fundinum í dag hafa fengið gríðarleg viðbrögð við þessu þar sem fólk furði sig á því, eftir að hafa lesið dóminn, að hann skyldi hafa verið sakfelldur.

„Í þessu fellst ekki endilega að maðurinn sé saklaus, við erum ekki að tala um það. Við erum að tala um hvort sökin sannast í málinu, það er nauðsynlegt að hafa þetta í huga,“ sagði Jón Steinar. Gagnrýndi hann dómstóla fyrir að byggja sakfellingar í kynferðisbrotamálum á s.k. „hearsay“ framburði, s.s. vitnisburðum brotaþola eða endursögnum vitna á vitnisburði brotaþola. Lýsti hann þeirri skoðun sinni að vitni væru almennt ofmetin sönnunargögn og varaði við því að óbein sönnunargögnum væri gefið of mikið vægi. 

Kynferðisbrot ólík flestum öðrum

„Auðvitað er skylt að reyna að sanna þessi brot eins og hægt er en við verðum að beita öguðum mælikvarða. Ég veit að það er mikil löngun til þess að beita óbeinum sönnunum til að sanna að menn hafi framið þessi brot og ég skil það mjög vel, en við megum ekki láta undan.“ Jón Steinar sagðist einnig að mæling á áfallastreituröskun væri varhugaverð sem sönnun við því að brot hafi verið framið. Hann sagði af öllu ljóst að á heildina litið hafi verið slakað á sönnunarkröfum síðastliðin ár. 

Kynferðisbrot eru erfið viðfangs að sögn Jóns Steinars. „Þau eru ólík flestum öðrum brotum, að því leyti að kynmök tilheyra eðlilegri hegðun fólks. Það gildir allt annað um flest annað, til dæmis líkamsárásir. Fólk á kynmök með vilja beggja, þetta er það sem tilheyrir eðlilegri háttsemi og það gerir vandann meiri. Þegar kært er fyrir svona brot hefur fólk oft verið drukkið, stundum er um svo kölluð skyndikynni að ræða, og það er eins og sumir telji nóg að það sé kært til að ná fram sakfellingu. „Það kærir engin kona kynferðisbrot án þess að hafa orðið fyrir því“ heyrum við sagt, og það getur vel verið satt, en það er engin sönnun.“

Einhverjir sekir menn munu sleppa

Valtýr Sigurðsson fyrrverandi ríkissaksóknari hélt því fram í grein sem birtist 25. október á Visi.is að væri fallist á sjónarmið Jóns Steinars um sönnunarfærslu í kynferðisbrotamálum myndi það „væntanlega leiða til þess að óhjákvæmilegt yrði að sýkna í flestum, jafnvel öllum málum af þessu tagi svo framarlega sem ákærðu neituðu staðfastlega sök“.

Jón Steinar sagði í erindi sínu í dag að Valtýr taki þátt í múgæsingu gegn sér. Aðspurður hvort sakfellingum í kynferðisbrotamálum myndi fækka mjög verði farið að ýtrustu sönnunarkröfum líkt og hann fari fram á sagðist Jón Steinar búast við því að hlutfall sakfellinga myndi lækka eitthvað. 

„Við vitum að „saklaus uns sekt er sönnuð“ leiðir stundum til þess að sekir menn sleppa. Við gerum það sem við getum til að tryggja sönnun um að afbrotamenn hafi framið afbrot og að þeim sé refsað, en við verðum að fara eftir lögum og lagareglum. Það er alveg bókað mál að það mun leiða til þess að einhverjir sekir menn sleppa, en að verður að hafa það.“

Jón Steinar Gunnlaugsson var framsögumaður á málfundi Lögréttu í dag.
Jón Steinar Gunnlaugsson var framsögumaður á málfundi Lögréttu í dag. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Sigríður J. Friðjónsdóttir hlýddi á framögur um sönnunarkröfur í kynferðisbrotamálum.
Sigríður J. Friðjónsdóttir hlýddi á framögur um sönnunarkröfur í kynferðisbrotamálum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari sagðist engin merki sjá þess að …
Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari sagðist engin merki sjá þess að slakað hafi verið á í sönnunarkröfum í kynferðisbrotamálum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Brynjar Níelson var meðal lögfræðinga og laganema sem sóttu málfundinn …
Brynjar Níelson var meðal lögfræðinga og laganema sem sóttu málfundinn í dag. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert