Drífa Hjartardóttir hefur verið ráðin sveitarstjóri Rangársþings ytra en þar hefur nýr meirihluti verið myndaður. Gengið var frá ráðningu Drífu í morgun. Fráfarandi sveitarstjóri er Gunnsteinn R. Ómarsson.
Fram hefur komið að meirihluti Á-listans í Rangárþingi ytra sé fallinn en Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir ætlar að mynda meirihluta með D-listanum
„Það var búið að biðja mig um að taka að mér að vera sveitarstjóri Rangárþings ytra,“ segir Drífa í samtali við mbl.is
„Meirihlutinn varð orðinn í gærkvöldi og það var gengið frá þessu við mig kl. hálf átta í morgun,“ segir Drífa.
Aðspurð segir hún að verkefnið leggist vel í sig. „Ég var í sveitastjórn í Rangárvallahreppi í mörg ár áður en ég fór á Alþingi [þar sem hún sat frá 1999 til 2007]. Þannig að ég þekki þetta mjög vel, allt umhverfið hér og fólkið sem hér býr og hlakka til þess að gera góða hluti með þessu góða fólki.“
Þá segir Drífa aðspurð að hún vilji leggja áherslu á að fólk geti unnið saman og hugsað sé um framtíð sveitarfélagins. Menn séu ekki að velta sér upp úr einstaklingunum heldur reyni að vinna að málefnum sveitarfélagsins. Það skipti allra mestu máli.
Ekki er búið að ákveða hvenær Drífa muni taka formlega til starfa. Hún mun funda með nýjum meirihluta í dag og eiga vinnufund með þeim á morgun. Þá eigi eftir að ræða við forstöðumenn og starfsmenn sveitarfélagsins og þeir látnir vita að engar breytingar séu fyrirhugaðar í tengslum við myndun nýs meirihluta og ráðningu nýs sveitastjóra.
„Ég er að vinna hjá Sjálfstæðisflokknum eins og er en ég geri ráð fyrir að ég muni taka til starfa mjög fljótlega,“ segir hún.
Spurð hvort búið sé að ganga frá málum sem tengjast fráfarandi sveitastjóra, segir Drífa að það sé mál sem hún skipti sér ekki af. „Ég kem bara inn þegar búið er að ganga frá því.“