Reglur um kynjakvóta hleypa aukinni spennu í prófkjör Samfylkingarinnar í SV-kjördæmi sem hefst á miðnætti. Reglurnar þýða að tvær konur og tveir karlar verða í fjórum efstu sætunum. Fjórir þingmenn bjóða sig fram í prófkjörinu: þrír karlar og ein kona.
Prófkjör Samfylkingarinnar í Kraganum markast af tvennu. Annars vegar er ljóst að vegna reglna um kynjakvóta verða ekki allir fjórir núverandi þingmenn flokksins í fjórum efstu sætunum og hins vegar hefur formannskosning í Samfylkingunni einhver áhrif.
Samfylkingin hélt prófkjör í Kraganum í mars 2009. Um 2.800 greiddu atkvæði í prófkjörinu. Þá náði Árni Páll Árnason fyrsta sæti. Katrín Júlíusdóttir stefndi á annað sætið og náði því. Lúðvík Geirsson keppti við Árna Pál um fyrsta sætið en endaði í þriðja sæti. Þórunn Sveinbjarnardóttir endaði í fjórða sæti og Magnús Orri Schram náði fimmta sætinu. Áður en gengið var frá listanum ákvað Lúðvík að færa sig niður í fimmta sæti sem var baráttusæti flokksins. Þórunn tók þriðja sæti og Magnús Orri færðist upp í fjórða sætið.
Niðurstaða kosninganna varð sú að Samfylkingin fékk fjóra menn kjörna. Litlu munaði að Lúðvík næði á þing. Þegar Þórunn ákvað að hætta á þingi á síðasta ári tók Lúðvík sæti hennar.
Fyrst Samfylkingunni mistókst að ná fimm mönnum í kjördæminu í síðustu kosningum þrátt fyrir að flokkurinn bætti talsvert við sig á landsvísu verður harðsótt fyrir flokkinn að ná fimm mönnum á þing í næstu kosningum. Hafa þarf þó í huga að í næstu kosningum fjölgar þingmönnum SV-kjördæmis um einn því að vegna fjölgunar íbúa í kjördæminu færist einn þingmaður frá NV-kjördæmi. Sé tekið mið af skoðanakönnunum verður að telja raunhæfara að flokkurinn fái fjóra þingmenn í næstu kosningum.
Samfylkingin er með reglu um svokallaða paraða framboðslista. Það þýðir að í efstu fjórum sætum listans verða tvær konur og tveir karlar og í efstu tveimur sætum verða karl og kona. Ekki er um fléttulista að ræða og því gæti kona verði í fyrsta og fjórða sæti eða öðru og þriðja sæti.
Árni Páll býður sig fram í fyrsta sæti listans líkt og síðast, en Katrín Júlíusdóttir, fjármálaráðherra, stefnir sömuleiðis á fyrsta sætið. Fáir treysta sér til að svara því hvernig þessi barátta fer.
Árni Páll hefur lýst yfir framboði til formanns Samfylkingarinnar. Katrín hefur sagt að hún ætli að svara því eftir prófkjörið hvort hún bjóði sig fram. Sumir hafa túlkað það þannig að hún ætli í formannsframboð ef hún nær fyrsta sætinu en meiri óvissa sé um hvað hún geri ef hún nær ekki markmiði sínu í prófkjörinu. Stuðningsmenn hennar hafa lagt áherslu á að með því að kjósa hana séu þeir að tryggja um leið að hún muni gefa kost á sér til formanns. Ljóst er að sá sem sigrar í baráttunni um fyrsta sætið fær um leið vind í seglin í formannskjöri.
Sumir viðmælendur mbl.is leggja hins vegar áherslu á að rangt sé að tala um prófkjörið sem upphitun fyrir formannskjör. Í fyrsta lagi sé mjög líklegt að fleiri en Árni Páll og Katrín muni bjóða sig fram til formanns og í öðru lagi geti það varla ráðið úrslitum í formannskjöri hvað örfá þúsund kjósendur í einu kjördæmi segi. Líklegt sé að formaður verði kjörinn í póstkosningu meðal allra félaga í Samfylkingunni og í því kjöri muni tugir þúsunda flokksfélaga um allt land ráða niðurstöðunni. Árni Páll hefur raunar lagt áherslu á að úrslitin í Kraganum hafi ekki áhrif á ákvörðun sína um formannsframboð.
Sex fyrrverandi bæjarfulltrúar í Hafnarfirði hafa lýst yfir stuðningi við Katrínu, en meðal þeirra er Gunnar Svavarsson, fyrrverandi alþingismaður. Hrannar Björn Arnarsson, aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur, hefur einnig lýst yfir stuðningi við hana.
Allir bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Kópavogi hafa lýst opinberlega yfir stuðningi við Árna Pál. Það hafa Þórunn Sveinbjarnardóttir og Rannveig Guðmundsdóttir, fyrrverandi þingmenn flokksins, einnig gert.
Bæði Lúðvík Geirsson og Magnús Orri Schram hafa sterka stöðu innan Samfylkingarinnar. Lúðvík er fyrrverandi bæjarstjóri í Hafnarfirði, þar sem fylgi flokksins hefur alltaf verið mjög traust, og býr yfir mikilli reynslu. Magnús Orri kom nýr inn á þing í síðustu kosningum, en hann gegndi um tíma stöðu þingflokksformanns. Magnús Orri gaf nýlega út bók þar sem hann lýsti framtíðarsýn sinni í pólitík. Hann hefur einnig verið duglegur að rækta samband við kjósendur. Staða hans hefur því styrkst á kjörtímabilinu. Lúðvík stefnir á annað sætið en Magnús Orri stefnir á 2.-3. sæti.
Fyrir utan Katrínu bjóða fjórar aðrar konur sig fram í prófkjörinu, Amal Tamimi, framkvæmdastjóri, Anna Sigríður Guðnadóttir, deildarstjóri, Margrét Gauja Magnúsdóttir, bæjarfulltrúi og kennari, og Margrét Júlía Rafnsdóttir verkefnastjóri. Ein þeirra verður í einu af fjórum efstu sætunum í næstu kosningum.
Amal Tamimi er framkvæmdastjóri og varaþingmaður Samfylkingarinnar og hefur m.a. getið sér orð fyrir vinnu að málefnum nýbúa. Anna Sigríður er úr Mosfellsbæ og starfar sem deildarstjóri Heilbrigðisvísindabókasafns LSH. Margrét Gauja er kennari og bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði. Margrét Júlía er menntuð í umhverfisfræði og starfar sem verkefnisstjóri hjá Barnaheillum.
Prófkjörið um helgina er rafrænt og stendur í tvo daga, föstudag og laugardag. Prófkjörið hefst á miðnætti og lýkur kl. 17 á laugardag.
Kosningarétt hafa flokksmenn og skráðir stuðningsmenn í Suðvesturkjördæmi. Kjörskrá lokaði 2. nóvember. 5683 eru á kjörskrá - 5080 flokksfélagar og 603 stuðningsmenn. Tæplega 5000 voru skráðir flokksfélagar í kjördæminu í september.
Hægt er að kjósa í hvaða nettengdu tölvu sem er. Þeir sem hafa ekki aðgang að nettengdri tölvu eða eru ekki með aðgang að heimabanka geta kosið á eftirtöldum stöðum laugardaginn 10. nóvember kl. 10.00-17.00:
Garðabær: Lyngási 9, jarðhæð Hafnarfjörður: Samfylkingarsalnum Strandgötu 43 Kópavogur: Samfylkingarsalnum Hamraborg 11, 3. hæð Mosfellsbær: Hlégarði Seltjarnarnes: Í hliðarsal bókasafnsins, annarri hæð á Eiðistorgi.
Á miðnætti hefst einnig kosning í prófkjöri Samfylkingarinnar í NA-kjördæmi, en prófkjörið stendur föstudag og laugardag og lýkur kl. 18.
Átta hafa gefið kost á sér í prófkjörinu en frambjóðendur eru:
Kristján L. Möller, alþingismaður, í 1. sæti.
Sigmundur Ernir Rúnarsson, alþingismaður, í 1.-3. sæti.
Örlygur Hnefill Jónsson, héraðsdómslögmaður, í 1.-6. sæti.
Jónína Rós Guðmundsóttir, alþingismaður, í 2. sæti.
Erna Indriðadóttir, upplýsingafulltrúi, í 2. sæti.
Helena Þuríður Karlsdóttir, lögfræðingur, í 3.-4. sæti.
Ingólfur Freysson, framhaldsskólakennari, í 3.-6. sæti.
Friðbjörg Jóhanna Sigurjónsdóttir, sjúkraliði, í 4.-6. sæti.