Gert að lækka höfuðstól

Landsbankinn
Landsbankinn mbl.is/Hjörtur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur gert Landsbankanum að lækka eftirstöðvar bílaleigusamnings eignarhaldsfélags í samræmi við dóma Hæstaréttar. Ágreiningslaust var að samningurinn var ólögmætur.

Um var að ræða bílaleigusamning sem hafði að geyma ólögmætt ákvæði um gengistryggingu og að hann sé lánasamningur. Deilan sneri að því með hvaða hætti skuli endurútreikna lánið og við hvaða tímamark eigi að styðjast þegar vextir af láninu eru endurútreiknaðir.

Eignarhaldsfélagið byggði kröfu sína á því að það hefði staðið skil á greiðslu afborgana af samningnum mánaðarlega og fengið greiðslukvittun útgefna. Þar sem félagið hafi í höndum fullnaðarkvittun geti Landsbankinn ekki krafið hann um frekari greiðslu aftur í tímann fyrir það tímabil þegar greidd hafi verið afborgun og vextir.

Félagið taldi að með því að reikna vexti afturvirkt frá upphafsdegi bílasamningsins, eins og Landsbankinn reiknaði lánið, sé verið að skerða eignarrétt félagsins. Vísað var í dóm Hæstaréttar frá því í febrúar þessu til stuðnings. Því skuli endurútreikna samninginn frá þeim tíma sem síðasta greiðslukvittun var gefin út, en það var 10. júní 2010.

Eignarhaldsfélagið skuldbatt sig samkvæmt samningi aðila til þess að greiða Landsbankanum 5.972.738 kr. með 60 afborgunum á fimm árum. Hinn 31. janúar 2011, þegar samningurinn hafði verið endurútreiknaður af hálfu stefnda, hafði stefnandi þegar greitt 43 afborganir af láninu ásamt vöxtum eða alls 4.260.973 kr.

Af þeirri fjárhæð hafði félagið greitt 764.459 kr. í vexti. Samkvæmt endurútreikningi Landsbankans voru endurreiknaðir vextir fram að síðasta greidda gjalddaga 2.200.784 kr.
Mismunurinn á milli þeirrar fjárhæðar sem félagið hafði þegar greitt í vexti við endurútreikning lánsins og fjárhæðar endurútreiknaðra vaxta fyrir tímabilið 10. desember 2006 til 10. júní 2010, þ.e. 1.436.325 kr., er sú fjárhæð vaxta sem Landsbankinn krefur félagið um til viðbótar fyrir liðna tíð. "Þykir sú fjárhæð umtalsverð þegar haft er í huga að upphafleg heildarfjárhæð bílasamningsins var 5.972.738 kr."

Dómurinn féllst á rök eignarhaldsfélagsins og gerði Landsbankanum að lækka höfuðstól samningsins þannig að við dagsetningu endurútreiknings, 31. janúar 2011, hafi eftirstöðvarnar numið 1.304.820 kr. Ekki var þó tekin afstaða til þess hvernig fer um uppgjör samningsins eftir dagsetningu endurútreiknings.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert