„Sá, sem þetta ritar, var að kenna stúdentum klíniska aðferð í gær á Landspítala. Neminn átti að taka sjúkrasögu og skoða sjúkling. Sjúklingurinn lá á tvíbýli með öðrum sjúklingi og aðeins var tjald á milli. Engin skoðunaraðstaða var á deildinni, engin skoðunaráhöld aðgengileg“, segir Páll Torfi Önundarson, yfirlæknir, í grein í Morgunblaðinu í dag. Þegar ég var læknanemi á sama stað fyrir 33 árum voru skoðunarstofur með öllum áhöldum til taks.
Þá segir Páll Torfi: „Þegar ég flutti til Bandaríkjanna 1984 til sérnáms hafði sýklafræðideild Landspítalans starfað í 10 ár í lekum bráðabirgðabröggum. Deildin er þar enn. Rannsóknastofur voru í gamalli þvottahúsbyggingu norðan hjúkrunarskólans með ófrágengnum, ómalbikuðum og holóttum bílastæðum allt í kring. Þrjátíu árum síðar er það óbreytt. Þegar ég flutti aftur heim til Íslands 1991 hafði risið þriðjungur af nýju húsi, K-byggingu, við Barónsstíg. Tveim þriðju hlutum byggingarinnar er ólokið enn.
Niðurlagsorð yfirlæknisins eru þessi: „Samfélagsleg afleiðing rangrar forgagnsröðunar er m.a. sú, að Landspítalinn stendur á brauðfótum og er ekki aðlaðandi vinnustaður, sérmenntuðum læknum fækkar og ömurleg og úrelt aðstaða sjúklinga, starfsfólks og nema heldur áfram að versna“.