Árni Páll Árnason, alþingismaður og frambjóðandi til formennsku í Samfylkingunni, kveðst staðráðinn í að bjóða sig fram til formennsku í flokknum hvernig sem honum reiðir af í flokksvalinu um næstu helgi.
„Ég er í framboði til formanns Samfylkingarinnar og ég verð í framboði til formanns Samfylkingarinnar,“ sagði Árni Páll. „Ég sækist eftir umboði til að leiða flokkinn. Það umboð get ég ekki þegið frá einum eða neinum einstaklingi eða verið uppáhalds kandídat eins eða neins. Ég sækist eftir því umboði frá flokksmönnum sjálfum. Það er þeirra að ákveða hvort þeir veita mér það eða ekki. Ég mun glaður una niðurstöðunni.“
Hrannar Björn Arnarsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra lýsti yfir stuðningi við Katrínu Júlíusdóttur og hvatti alla félaga sína í Kraganum að gera hið sama. Þetta gerði hann í Facebook-færslu í gærmorgun.