Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, stjórnarformaður hjúkrunarheimilisins Eirar, hefur ákveðið að stíga til hliðar sem formaður í kjölfar rekstrarerfiðleika félagsins. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í kjölfar stjórnarfundar nú síðdegis.
Ennfremur kemur fram að rekstrarerfiðleikar heimilisins séu miklir og megi meðal annars rekja til efnahagshrunsins hér á landi og seinkun framkvæmda við byggingu þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar um nokkur ár en þetta hafi gert það að verkum að erfiðar hafi reynst að ráðstafa íbúðum Eirborga.
Eftir sem áður sé ljóst að endanleg ábyrgð á þeirri stöðu sem sé komin hvíli á herðum stjórnar félagsins.
Yfirlýsingin í heild:
„Erfiðleikar í rekstri húsrekstrarsjóðs Eirar eru miklir. Á þeim tíma eru margvíslegar skýringar, m.a. afleiðingar efnahagshrunsins og seinkun framkvæmda um nokkur ár á byggingu þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar í tengslum við Eirborgir sem hefur gert það að verkum að erfiðar reyndist að ráðstafa íbúðum í Eirborgum en á síðasta ári voru rúmlega 50 íbúðir lausar. Í dag eru þær um 30. Stjórn og starfsmenn félagsins hafa unnið af fullum heilindum frá miðju ári 2011 við að draga úr vandanum með verulegum hagræðingaraðgerðum en það hefur ekki dugað. Mikilvægt er að taka fram að rekstur hjúkrunarheimilisins stendur vel og þar er veitt afar góð þjónusta.
En þegar upp er staðið ber stjórn félagsins endanlega ábyrgð á þeirri stöðu sem hún stendur andspænis. Fulltrúaráðsfundur Eirar verður haldinn í nóvember og þar verður gerð ítarleg grein fyrir stöðunni, með hvaða hætti stjórnin hefur brugðist við þessum vanda, ekki síst stöðu búseturétthafa.
Við slíkar aðstæður standa gild rök til þess að stjórnin segi af sér. Það eru líka gild rök fyrir því að hún hopi ekki frá vandanum þegar hann er mestur. Mestu skiptir þó að horfa til framtíðarhagsmuna félagsins. Engin önnur sjónarmið mega ráða för. Að vel yfirveguðu ráði er það mitt mat að framar öllu sé nú brýnt að byggja upp á ný traust bæði gagnvart lánadrottnum og skjólstæðingum. Jafnframt er það mitt mat til framtíðar að það sé auðveldara fyrir nýja stjórn að byggja upp það traust.
Ég hef á undanförnum áratugum barist fyrir hagsmunamálum eldri borgara með margvíslegum hætti og ætla mér að vinna áfram að lausn þessa máls. Sjálfur mun ég nú stíga til hliðar sem formaður Eirar.“