„Niðurstaða héraðsdóms í morgun er árétting á því sem ég hef sagt um að Landsbankanum sé ekkert að vanbúnaði að hefja endurútreikning þessara lána,“ segir Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Hann segir ákvörðun Landsbankans og Lýsingar vonbrigði.
Eins og greint var frá á mbl.is fyrr í dag dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur Landsbankann til að lækka eftirstöðvar bílaleigusamnings eignarhaldsfélags í samræmi við dóma Hæstaréttar. Helgi segir að niðurstaðan styðji við þau sjónarmið sem hann hafi kynnt fyrir fjármálafyrirtækjum, að Borgarbyggðardómurinn hafi einnig fordæmisgildi gagnvart skemmri lánunum. „Arion banki og Íslandsbanki hafa þegar hafi endurútreikning bæði skemmri og lengri lána en það hefur valdið vonbrigðum að hvorki Landsbankinn né Lýsing hafa talið sér skylt að endurreikna skemmri lánin.“
Hann segir að það hljóti að vera umhugsunarefni fyrir bankann, hvort hann eigi ekki að taka ákvörðun um sambærilega viðskiptahætti og hinir viðskiptabankarnir.
Þeir gengislánadómar sem fallið hafa snúa allir að lánum sem voru í skilum. Spurður hvort vafi sé þá enn uppi um endurútreikning lána hjá þeim viðskiptamönnum sem nýttu sér úrræði fjármögnunarfyrirtækja segir Helgi svo ekki vera.
„Það var þannig að viðskiptabankarnir lýstu því yfir gagnvart sínum viðskiptavinum að þeir ættu að gera eitthvað í sínum málum, semja með einum eða öðrum hætti, og þeir myndu aldrei tapa á því að semja. Það er skuldbinding gagnvart viðskiptavinum sem við göngum út frá að þeir efni, að ekki þurfi dómstóla til að dæma menn til að standa við orð sín. Orð skulu standa.“
Hann segir það siðferðilega skuldbindingu fyrirtækjanna gagnvart viðskiptavinum sínum og að ekki eigi að þurfa prófmál til að leiðrétta hana.