Lýsing telur dóm héraðsdóms í morgun um gengistryggingu lána ekki hafa fordæmisgildi við endurútreikninga á vöxtum. Ennfremur er lögð áhersla á það í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu að það eigi ekki aðild að málinu heldur annað fjármálafyrirtæki auk þess sem dómurinn fylgi ekki forsendum Hæstaréttar í máli Borgarbyggðar gegn Arion banka. Þá hafi dómum undirréttar í slíkum málum oft verið breytt í Hæstarétti.
„Umrætt mál er höfðað í október 2011 og greinargerð Landsbankans skilað áður en dómur Hæstaréttar féll í fyrsta málinu um gildi fullnaðarkvittana. Landsbankinn gat því ekki tekið mið af þeim dómi í málatilbúnaði sínum. Afleiðing þessa er sú að ekki er tekið á þeim álitaefnum sem til stendur að leysa með 11 dómsmálum í kjölfar dóms Hæstaréttar í febrúar sl. Lýsing var fyrsta fjármálafyrirtækið til að þingfesta slíkt mál í júní sl. og leggur áherslu á að fá niðurstöðu í það mál eins fljótt og unnt er,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir að Lýsing vænti þess „að í samræmi við grundvallarreglur réttarríkisins fái félagið notið þeirra stjórnarskrárvörðu réttinda að fá úrlausn álitefna fyrir sjálfstæðum og óhlutdrægum dómstól án pólitískrar íhlutunar.“