Þórður Þ. Þórðarson, sem rekur Bifreiðastöð ÞÞÞ á Akranesi, er mjög óánægður með að allir atvinnubílstjórar á rútum og stórum flutningabílum verði skyldaðir til að sitja 35 klukkustunda endurmenntunarnámskeið í 7 stunda lotum á fimm ára fresti. Lagabreyting þess efnis er í frumvarpi til umferðarlaga.
„Þetta er heil vinnuvika fyrir utan allan kostnað,“ sagði Þórður. „Við erum 15 bílstjórar hér og þetta myndi þýða 15 vikna vinnutap. Þetta verður væntanlega haldið á virkum dögum og menn geta ekkert lokað fyrirtækjunum fyrir svoleiðis.“
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Þórður því borið við að íslenskir bílstjórar þyrftu þessa endurmenntun til að geta stundað vinnu erlendis, því þetta væru Evrópureglur. „Það á ekkert að bitna á okkur sem erum að keyra hérna heima.“
Samtök atvinnulífsins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) skiluðu sameiginlegri umsögn um frumvarpið. Hvað endurmenntun atvinnubílstjóra varðar benda þau á að í úrskurði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í ársbyrjun 2011 hafi ráðuneytið talið að samkvæmt 75. grein stjórnarskrárinnar mætti aðeins setja atvinnufrelsi skorður ef almannahagsmunir krefðust þess og þyrfti lagaboð til.