„Ég tel sjálfur að söguleg kaflaskipti verði með þessu samkomulagi, sem við kynnum hér í dag, milli utanríkisráðuneytisins og Alþjóðabankans um að hraða jarðhitavæðingu í 13 ríkjum Austur-Afríku sem öll liggja á hinum fræga sigdal,“ segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.
Þetta kom fram í ávarpi Össurar á blaðamannafundi þar sem hann kynnti í dag stærsta þróunarsamvinnuverkefni sem Íslendingar hafa tekið þátt í. Um er að ræða 65 milljarða króna sjóð sem Alþjóðabankinn hyggst koma upp til jarðhitanýtingar í Afríku. Sjóðurinn verður nýttur til að gera hagkvæmniathuganir og tilraunaboranir. Össur segir að samstarf Íslands og Alþjóðabankans sé mesta átak til jarðhitanýtingar í þróunarríkjum frá upphafi og Ísland verði aðalráðgjafi bankans á því sviði.
„Með þessu samkomulagi er Ísland orðið helsti samstarfsaðili Alþjóðabankans á sviði jarðhita,“ sagði Össur.
Við þetta tilefni var undirritað samkomulag Íslands við Norræna þróunarsjóðinn (NDF) um fjármögnun fyrsta hluta verkefnisins. Það feli í sér að íslensk stjórnvöld og þróunarsjóðurinn leggi 800 milljónir króna hvort til verkefnisins á næstu fimm árum.
„Þetta eru sérlega góð tíðindi og þau sýna að hvernig Íslendingum með útsjónarsemi tekst að margfalda framlög sín með alþjóðlegri samvinnu,“ sagði Össur og þakkaði frumkvæði Engilberts Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ).
Össur greindi jafnframt frá því að hann hafi falið ÞSSÍ að vera framkvæmdaaðili fyrsta hluta samkomulagsins.
„Ég hef litið svo á að það sé skylda mín sem ráðherra að boða fagnaðarerindi jarðhitans, bæði heima en ekki síst erlendis. Ekki bara til þess að koma á framfæri reynslu og þekkingu Íslendinga heldur ekki síður til að benda á það að jarðhiti hefur oft verið gróflega vanmetinn sem uppspretta áreiðanlegrar og ódýrrar endurnýjanlegrar orku sem að hefur miklu minni umhverfisleg áhrif en flestar aðrar tegundir orkugjafa,“ segir Össur.
Hvað varðar samkomulag Íslands og Norræna þróunarsjóðsins, þá segir Össur að um tímamótasamkomulag sé að ræða.
Hvað varðar sjóðinn sem Alþjóðabankinn hyggst koma upp, þá sagði Össur: „Þetta er sá kafli í hverju verkefni sem er áhættusamastur og sem erfiðast er að finna fjármagn til þess að kosta. Þetta er hinn raunverulegi flöskuháls,“ sagði Össur.
„Alþjóðabankinn í samvinnu við utanríkisráðuneytið er nú í óða önn að afla stuðnings annarra ríkja, sem Ísland hefur m.a. átt viðræður við og í sumum tilvikum gert samkomulag við, sömuleiðis alþjóðlegra loftlagssjóða og þróunarbanka til að leggja fram fé til tilraunaboruna. Það hefur gengið það vel að Alþjóðabankinn stefnir að því að þetta verði risasjóður sem verður allt að 500 milljónir Bandaríkjadala, sem svarar til jafnvirðis nálægt 65 millljarða kr. Ég tel að hér séum við að taka sögulegt skref í það að breiða út notkun jarðhita sem orkulindar í heiminum.“
Í framhaldinu af þessu verði mögulegt að ráðast í skipulegar virkjanaframkvæmdir til að framleiða raforku og til fjölnýtingar jarðhitans í atvinnuskyni með virki þátttöku einkageirans.