Slitastjórn Glitnis frestar framlagningu nauðasamnings

Slitastjórn Glitnis.
Slitastjórn Glitnis. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Slitastjórn Glitnis hefur tilkynnt kröfuhöfum að ekki muni takast að leggja fram frumvarp að nauðasamningi í desember næstkomandi eins og að var stefnt.

Í tilkynningu frá slitastjórn Glitnis um þetta efni segir, að ekki sé unnt eins og stendur að tilkynna kröfuhöfum um nýja dagsetningu vegna ýmissa óvissuþátta.

„Nýlega ræddi Már Guðmundsson seðlabankastjóri í íslenskum fjölmiðlum um nauðsynlegar forsendur sem þyrftu að vera fyrir hendi til þess að Seðlabanki Íslands gæti gefið samþykki fyrir nauðasamningi vegna Glitnis hf. Í kjölfarið hefur slitastjórn Glitnis leitast við að ganga úr skugga um áhrif þessa á þau tímasettu markmið sem tilkynnt hafa verið varðandi framlagningu nauðasamnings. Ljóst er af þeim viðræðum, sem hafa átt sér stað, að ekki verður unnt að ná áður settu markmiði í desember 2012,“ segir í tilkynningunni.  

Þar kemur ennfremur fram, að slitastjórnin vonist til þess að geta veitt kröfuhöfum nánari upplýsingar á næsta opna fundi kröfuhafa, sem er 29. nóvember næstkomandi á Hilton Nordica Hóteli í Reykjavík kl. 10 árdegis.

„Að gefnu tilefni tekur slitastjórn Glitnis fram að allar upplýsingar, sem Seðlabankinn hefur óskað eftir, hafa verið veittar fúslega og tímanlega. Reglulegir fundir eru haldnir með Seðlabankanum um slitameðferðina. Slitastjórnin hefur kappkostað að eiga gott og upplýsandi samstarf við viðeigandi stjórnvöld á öllum stigum slitameðferðarinnar og mun halda því áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert