„Leita lausna logandi ljósi“

Ekki liggur fyrir hvernig hjúkrunarheimilið á að geta staðið við …
Ekki liggur fyrir hvernig hjúkrunarheimilið á að geta staðið við skuldbindingarnar en peningar íbúðarétthafa voru notaðir til að fjármagna framkvæmdir við öryggisíbúðir við Fróðengi í Grafarvogi, sem margar standa tómar. ómar

Framkvæmdastjóri Eirar fundaði með fjárlaganefnd Alþingis í morgun þar sem hann upplýsti þingmenn um stöðu hjúkrunarheimilisins. Í gær átti hann fund með borgarráði Reykjavíkur þar sem farið var yfir stöðuna með borgarfulltrúum.

„Þessi fundur [með fjárlaganefnd Alþingis] var trúnaðarfundur. Staðan er viðkvæm og ég var að upplýsa nefndina eins og ég gat,“ segir Sigurður Rúnar Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Eirar í samtali við mbl.is.

Sigurður segist ekki geta tjáð sig um efni fundanna í smáátriðum. Hann segir að búið sé að setja saman hópa sem vinni að lausn á þeim mikla vanda sem hjúkrunarheimilið stendur frammi fyrir. Líkt og fram hefur komið nema heildarskuldir þess um átta milljörðum króna en þar af nema skuldbindingar vegna búseturéttar um tveimur milljörðum króna.

Formaður fjárlaganefndar Alþingis og fleiri opinberir aðilar, m.a. fulltrúar frá Reykjavíkurborg, Mosfellsbæ og frá velferðarráðuneytinu, eru á meðal þeirra sem eiga sæti í þessum hópum og fá þeir að fylgjast með framvindu málsins. Sigurður tekur fram að fulltrúarnir séu ekki hluti af stýrihópi heldur sitji þeir kynningarfundi þar sem þeir eru upplýstir um stöðuna hverju sinni.

„Þetta er ekki búið fyrr en það er búið. Það er verið að vinna að fullu krafti og á öllum vígstöðvum,“ segir Sigurður út í gang mála. „Við erum að reyna að gera okkar allra besta.“

Hann bendir á að búið sé að ráða lögfræðing til starfa sem haldi upplýsingafundi fyrir kröfuhafa, en á meðal þeirra eru íbúar sem hafa keypt búseturétt í öryggisíbúðunum.

Erfið staða

Stjórn hjúkrunarheimilisins Eirar fundaði í gærkvöldi en að fundinum loknum tilkynnti formaður stjórnarinnar, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, að hann hefði ákveðið að stíga til hliðar. Samkvæmt upplýsingum mbl.is stóð fundurinn yfir í þrjár klukkustundir og var þungt hljóð í fundarmönnum, enda málið alvarlegt.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, sem á sæti í stjórn Eirar, segir í samtali við mbl.is að fulltrúarráð hjúkrunarheimilisins verði kallað saman í lok næstu viku til að fara yfir stöðuna og þar muni málin skýrast. Þórunn segir ennfremur að stjórn Eirar muni koma aftur saman fyrir þann fund.

„Þetta er að sjálfsögðu erfitt, það gefur algjörlega auga leið. Menn eru að leita lausna logandi ljósi,“ segir hún og bætir við aðspurð, að alvarleg fjárhagsstaða hjúkrunarheimilisins hafi komið sér í opna skjöldu.

Í fulltrúarráðinu eiga sæti fulltrúar frá Reykjavíkurborg, Seltjarnarneskaupstað, Samtökum blindra og blindravina, Sjómannadagurinn í Reykjavík og Hafnarfirði, Sjálfseignarstofnunin Skjól, VR, og Félag áhugafólks og aðstandenda Alzheimersjúklinga og annarra skyldra sjúkdóma, sem eru stofnaðilar Eirar. Einnig eiga sæti í fulltrúaráðinu fulltrúar frá, Brynju – hússjóðs Öryrkjabandalagsins, Eflingu stéttarfélags, S.Í.B.S. og  Mosfellsbæjar.

Alls eru þetta 39 fulltrúar. Sjö fulltrúar koma frá Reykjavíkurborg en aðrir eiga þrjá fulltrúa í ráðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert