Samstaða, flokkur lýðræðis og velferðar, vill byggja undir menntakerfið sem eina af grunnstoðum samfélagsins og hlúa að grundvallarmenntun í öllum byggðarlögum landsins. Samstaða vill snúa frá markaðsdrifinni skóla- og menntastefnu undanfarandi ára og bæta menntunarskilyrði nemenda og kjör þeirra starfsstétta sem vinna að menntunarmálum innan skólanna.
Þetta kemur fram í ályktun um menntamál sem samþykkt var á landsfundi flokksins í október. Rakel Sigurgeirsdóttir, formaður aðildarfélags Samstöðu í Reykjavík, mælti fyrir tillögunni.
Í ályktuninni segir m.a. að mikill skortur sé á samræmdri stefnu í skólamálum. Sú ákvörðun að færa rekstur grunnskóla yfir til sveitarfélaga hafi haft þær afleiðingar að skólar hafa verið lagðir niður í dreifðari byggðum landsins og það ógni þar af leiðandi áframhaldandi búsetu á sífellt fleiri stöðum.
„Á krepputímum horfir það sérkennilega við að á sama tíma og rekstrarfé rótgróinna framhaldsskóla er skorið niður er umtalsverðum fjármunum varið til uppbyggingar nýrra framhaldskóla og framhaldsdeilda. Tilfinnanlegt misræmi er líka að finna á núverandi stefnu og viðhorfum varðandi menntunina sjálfa.
Krafan um niðurskurð í rekstri skólanna hefur bitnað tilfinnanlega á starfskjörum þeirra sem koma að námi nemenda inni í skólunum. Þar kemur margt til sem grefur ekki aðeins undan velferð þessara stétta í starfi heldur líka menntuninni sem á að fara fram í skólunum,“ segir m.a. í ályktuninni.