Snjóflóð bar með sér 60 tonna grjót

Snjóflóð á landinu undanfarna daga. Eins og sjá má hafa …
Snjóflóð á landinu undanfarna daga. Eins og sjá má hafa þau orðið á Vestfjörðum, á Norðurlandi og á Austurlandi. Mynd/Veðurstofa Íslands

Þó nokkur snjóflóð féllu í Skagafirði í óveðrinu í byrjun nóvember. Meðal annars féll snjóflóð úr svonefndri Úlfskál sem liggur fyrir ofan Sleitustaði í mynni Kolbeinsdals og Hjaltadals og bar með um 60 tonna stein sem stóð í um 160 metra hæð að minnsta kosti þrjú hundruð metra. Frá þessu er greint á fréttavefnum Feyki.

Flóðið er talið hafa átt upptök sín efst í Úlfskál í um 900 metra hæð, fallið niður aurkeiluna, þar sem steinninn stóð, og niður á ræktuð tún. Haft er eftir Þorvaldi G. Óskarssyni ábúanda að flóðið hafi verið með þeim lengri sem fallið hafa á svæðinu. Það braut meðal annars niður hlaðinn stífluvegg uppistöðulóns rafstöðvar sem sett var upp árið 1947. Jafnframt eyðilagði flóðið girðingar.

Þá er haft eftir Þorsteini Sæmundssyni, forstöðumanni Náttúrustofu Norðurlands vestra, að umræddur steinn, sem er allt að fjórir og hálfur metri á lengd, sé einn af þeim stærstu steinum sem vitað er um með vissu að snjóflóð hafi borið með sér.

Ummerki snjóflóðsins verða annars kortlögð næsta sumar, en á Náttúrustofu Norðurlands vestra hafa farið fram rannsóknir á jarðfræðilegum ummerkjum snjóflóða um árabil.

Á vefsvæði Veðurstofu Íslands er spáð mikilli snjókomu og vindi á norðanverðu landinu í dag og fram á morgundag. Áttin verður NA-læg og síðan N-lægari. Fyrir er snjór frá því um síðustu helgi sem hefur víða blotnað og frosið á ný og er því harður. Hætt er við því að einhver snjóflóð falli í veðrinu ef spáin gengur eftir.

Fyrst eftir að veður gengur niður, sem verður líklega seinni part laugardags, er líklegt að snjóalög verði óstöðug. Fjalla- og vélsleðafólk er því beðið um að fara að öllu með gát ef haldið er til fjalla á sunnudag, einkum á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert