Svigrúm fyrir nýja þingmenn

Búist er við fyrstu tölum í prófkjörinu um kl. 19 …
Búist er við fyrstu tölum í prófkjörinu um kl. 19 á laugardagskvöldið. Rax / Ragnar Axelsson

Sjálfstæðismenn í SV-kjördæmi vonast eftir að bæta við sig 1-2 þingmönnum í næstu kosningum. Það þýðir að 2-3 nýir frambjóðendur, sem taka þátt í prófkjöri flokksins á morgun, geta gert sér vonir um að verða þingmenn eftir kosningar. Reiknað er með að þeir þrír þingmenn sem sækjast eftir endurkjöri verði í tryggum þingsætum.

Í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi sem fram fór vorið 2009 kusu 5.609 manns. Þetta var heldur minni þátttaka en í prófkjörinu árið 2006 þegar 6.409 kusu. Núna eru tæplega 15.000 kjósendur á kjörskrá. Prófkjörið er opið að því leyti að auk skráðra félaga fá þeir sem skrá sig í flokkinn á kjördegi að taka þátt. Þetta er sama fyrirkomulag og var í síðasta prófkjöri.

Fá sex menn kjörna samkvæmt nýrri könnun

Sjálfstæðisflokkurinn tapaði miklu fylgi í SV-kjördæmi í síðustu kosningum, en fylgið fór úr 42,6% í 27,6%. Flokkurinn fékk fjóra menn kjörna, Bjarna Benediktsson sem var í fyrsta sæti, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sem var í öðru sæti, Ragnheiði Ríkharðsdóttur sem var í þriðja sæti og Jón Gunnarsson sem var í fjórða sæti listans.

Þorgerður Katrín ákvað að sækjast ekki eftir endurkjöri og því bjóða þrír þingmenn flokksins sig fram að nýju. Skoðanakannanir benda til að Sjálfstæðisflokkurinn bæti við sig fylgi í næstu kosningum og í nýrri könnun Capacent er flokkurinn með sex þingmenn í SV-kjördæmi. Hafa þarf í huga að þingmönnum kjördæmisins fjölgar um einn í næstu kosningum. Það er því pláss fyrir nýja frambjóðendur ofarlega á listanum.

Bjarni fær samkeppni um fyrsta sætið

Þrír bjóða sig fram í fyrsta sæti. Bjarni Benediktsson, Ragnar Önundarson og Vilhjálmur Bjarnason sem býður sig fram í 1.-6. sæti. Ganga má út frá því sem vísu að Bjarni muni halda fyrsta sætinu og sú keppni sem hann fær sé fyrst og fremst mæling á styrk hans.

Ragnar hefur skrifað tvær greinar í Morgunblaðið þar sem hann gagnrýndi Bjarna harðlega fyrir aðkomu hans að viðskiptalífinu í aðdraganda hrunsins. Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, svaraði þessari gagnrýni í grein sem birtist í Morgunblaðinu.

Ragnar hefur bæði fyrir og eftir hrun haldið uppi gagnrýni á áhrifamenn í viðskiptalífinu. Það hefur Vilhjálmur Bjarnason einnig gert með mjög afgerandi hætti. Vilhjálmur hefur í þessari prófkjörsbaráttu ekki beint spjótum að Bjarna sérstaklega líkt og Ragnar. Vilhjálmur hefur heldur ekki sett stefnuna eins ákveðið á fyrsta sætið eins og Ragnar.

Jón og Ragnheiður keppa um annað sætið

Mikil baráttan er um annað sætið, en þar keppa Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Jón Gunnarsson, auk Vilhjálms.

Ragnheiði gekk mjög vel í síðasta prófkjöri þegar hún skaust upp í þriðja sætið. Hún er fyrsti varaforseti Alþingis og situr í velferðarnefnd og fjárlaganefnd. Ragnheiður hefur lýst afdráttarlausum stuðningi við að Ísland haldi áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandi og gengið þannig gegn stefnu forystu flokksins sem vill gera hlé á viðræðum. Heimssýn hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum birti í vikunni „minnisblað“á netinu þar sem minnt er á að þrír frambjóðendur í prófkjörinu séu fylgjandi aðild Íslands að ESB. Þetta eru Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason. Sú spurning hlýtur að vakna hvaða skilaboð er verið að senda til aðildarsinna í Sjálfstæðisflokknum ef Ragnheiði verður refsað fyrir af fylgja ekki línu forystunnar í þessu máli.

Jón Gunnarsson hefur setið á þingi síðan 2007. Hann á núna sæti í atvinnuveganefnd. Hann er talinn hafa styrkt stöðu sína í kjördæminu frá síðustu kosningum. Flestir reikna með að spurningin sé aðeins hvort hann verður í öðru eða þriðja sæti listans.

Hörð keppni um 4.-6. sætin

Sextán taka þátt í prófkjörinu og ljóst er að baráttan um 4.-6. sæti verður hörð. Erfitt er að spá fyrir um úrslit. Óli Björn Kárason, ritstjóri og varaþingmaður, stefnir á 3.-4. sæti, en hann náði fimmta sæti í síðasta prófkjöri. Hann hefur skrifað reglulega greinar í Morgunblaðið um stjórnmál og hefur tekið sæti á Alþingi.

Elín Hirst, fjölmiðlafræðingur og sagnfræðingur, stefnir á 3. sætið. Hún nýtur þess að vera þjóðþekkt þó að hún hafi tiltölulega nýlega ákveðið að skella sér út í stjórnmál.

Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Já Íslands, býður sig fram í 3.-5. sæti. Friðjón R. Friðjónsson ráðgjafi stefnir á 4. sætið. Hann hefur starfað sem aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar. Karen Elísabet Halldórsdóttir, varabæjarfulltrúi í Kópavogi og skrifstofustjóri, stefnir á 4. sætið. Bryndís Loftsdóttir, vörustjóri íslenskra bóka, býður sig fram í 4.-6. sæti. Kjartan Örn Sigurðsson, bæjarfulltrúi á Álftanesi, stefnir 5. sæti. Þá býður Sævar Már Gústavsson, sálfræðinemi við HR, sig fram í 5. sæti. Ætla má að þau eigi öll raunhæfa möguleika á að blanda sér í keppni um eitt af efstu sætunum.

Aðrir frambjóðendur eru Gunnlaugur Snær Ólafsson upplýsingafulltrúi, 6. sæti, Þorgerður María Halldórsdóttir háskólanemi, 6. sæti og Sveinn Halldórsson húsasmíðameistari, 7. sæti.

Frambjóðendur hafa reynt að nálgast kjósendur sína með því að vera áberandi á netinu, með fundahöldum, símhringingum o.s.frv. Lítið hefur verið um auglýsingar í fjölmiðlum. Fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi gaf út blað fyrir skömmu sem dreift var til félagsmanna í Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu.

Gert er ráð fyrir að fyrstu tölur verði tilkynntar um klukkan 19:00 í Valhöll í heyranda hljóði. Endanlegar tölur verða tilkynntar í Valhöll um klukkan 22:00.

Nánari upplýsingar um frambjóðendur og fyrirkomulag prófkjörsins er að finna á vef Sjálfstæðisflokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert