Óveður er nú víða á norðvestanverðu landinu samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni, allt frá Snæfellsnesi og norður á Tröllaskaga. Ófært er um Þverárfjall og frá Hofsósi til Siglufjarðar. Á öðrum leiðum á Norðurlandi vestra er hálka og jafnvel éljagangur.
Ennfremur er óveður á Holtavörðuheiði og hálka en snjóþekja og éljagangur á Fróðárheiði. Hálka og skafrenningur er á Vatnaleiði. Að sama skapi er óveður í Staðarsveit og í Svínadal. Annars staðar á Vesturlandi er ýmist autt eða hálkublettir.
Ófært er um Víkurskarð á Norðurlandi eystra og hefur skarðinu verið lokað af þeim sökum samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Akureyri. Einnig er ófært um Dalsmynni. Víða er ofankoma og ennfremur hálka, snjóþekja eða krap og skafrenningur. Þá er vonskuveður á Hólasandi og þæfingsfærð og ennfremur skafrenningur á Öxnadalsheiði og við Mývatn. Þæfingsfærð og stórhríð er á Fljótsheiði.
Á Vestfjörðum er einnig víða óveður. Stórhríð og þæfingsfærð er þannig á Gemlufallsheiði og stórhríð og snjóþekja í Önundarfirði og Súgandafirði. Ófært er á Steingrímsfjarðarheiði, Klettsháls og Hrafnseyrarheiði.
Víðast hvar er hálka á Austurlandi eða hálkublettir. Breiðdalsheiði og Öxi eru ófærar en vegur er að heita má auður með ströndinni frá Reyðarfirði og suður úr.
Vegir eru hins vegar að mestu auðir um sunnanvert landið en vonskuveður er á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli.