„Ég er náttúrlega fyrst og fremst landsbyggðar- og landbúnaðarmaður og hef ágæta þekkingu á þeim málaflokki og mun geta flutt hana með mér inn á þennan vettvang,“ segir Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, spurður hvaða mál brenna helst á honum, en hann gefur kost á sér í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.
„Það er mér mjög mikilvægt að sjónarmið bænda og landsbyggðar heyrist. Síðan eru þessi klassísku mál sem bændur eru að fást við. Það er gengið stöðugt á eignarrétt þeirra,“ segir hann. Þá sé hann einnig órólegur vegna meðferðar mála varðandi umsókn Íslands um inngöngu í Evrópusambandið. Það er kæruleysislega farið með hagsmuni Íslands í tengslum við hana. „Ég er þekktur fyrir þær skoðanir að vilja bara þessa umsókn út úr heiminum.“
Haraldur leggur ennfremur áherslu á að íslenskur landbúnaður eigi mikil tækifæri til framtíðar. Mikil eftirspurn sé að skapast í heiminum eftir matvælum. „Við þurfum ákveðna hugarfarsbreytingu gagnvart þeim tækifærum sem bíða okkar og við sem þjóð eigum að vera ófeimin um að tala um að framleiða verðmæti og framleiða mat. Það vantar talsvert í okkur held ég að við hugsum um okkur sjálf því það gerir það enginn fyrir okkur. Við verðum að framleiða og hugsa um það hvernig við ætlum að byggja upp okkar innra samfélag,“ segir hann.
Spurður hvort hann hafi hugsað sér að halda áfram sem formaður Bændasamtakanna ef hann sest á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn segist hann telja að það geti vel farið saman enda fordæmi fyrir því að formenn hagsmunasamtaka eigi sæti á þingi. Það sé hins vegar ekki hans að ákveða heldur Búnaðarþings ef til þess kæmi að hann settist á þing.
Kosið verður um framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi á tvöföldu kjördæmisþingi sem fram fer 24.-25. nóvember næstkomandi en frestur til þess að skila inn framboði rann út í gær. Haraldur hafa þar til í þessari viku verið óflokksbundinn en hann gekk þá í Sjálfstæðisflokkinn. Hann segist lengi hafa verið hvatamaður þess að bændur létu til sín taka í landsmálum og hafi því ekki getað skorast undan því þegar hann hafi verið hvattur til þess að gefa kost á sér.