„Kirkjan hefur fengið byr í seglin“

Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands.
Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

„Kirkjan hefur fengið byr í seglin og ljóst að meirihluti þjóðarinnar treystir henni til áframhaldandi góðra verka og forystu í þágu kristni hér á landi.“ Þetta sagði biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir, við upphaf kirkjuþings. Vísaði hún þar til niðurstöðunnar í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Agnes sagði að á erfiðum tímum kirkjunnar hefði borið á því að sjálfsmynd hennar hefði ekki verið sterk. „Í mótlæti er auðvelt að efast um sjálf okkur og það sem við höfum fram að færa. Það á jafnt við um einstaklinga sem og samfélagið allt, þar á meðal kirkjuna. Um tíma var sem sjálfsmynd okkar væri brotin, fórum næstum með veggjum, eins og við værum með smitandi sjúkdóm. Létum telja okkur trú um að nærveru okkar væri ekki óskað.“

Hún segir hins vegar að nú hafi rofað til í kirkjunnar sál. Ein ástæða fyrir því sé að þjóðinni gafst kostur á að tjá álit sitt á tilteknum atriðum í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnskipunarlaga og tiltekin álitaefni þeim tengd þann 20. október sl. 

Agnes benti á að ein spurningin fjallaði um þjóðkirkjuna og stöðu hennar í stjórnarskrá. „Niðurstaðan var að meira en helmingur þeirra sem kusu vildi áfram hafa ákvæði um þjóðkirkjuna í stjórnarskránni. Niðurstaðan kom einhverjum á óvart, mörgum þó gleðilega á óvart, en hún er liður í því að efla og styrkja sjálfsmynd kirkjunnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert